Dagur 3: Upp og ofan
Dagurinn byrjaði ekki vel, ég svaf líklega ekki nema í svona rúmlega fimm tíma í nótt sökum klósettferða og því að herbergisfélaginn var sett á sinn reglulega mónitor klukkan 6. Svo byrjaði að leka hjá mér klukkan átta og það tók óratíma fyrir læknana að koma að skoða svo ég lá bara lengi vel og reyndi að slaka á. Niðurstaðan úr skoðuninni var að leghálsinn er ennþá lokaður og engir alvarlegir samdrættir, svo þetta var svona “same old, same old”.
Það tók mig frekar langan tíma að jafna mig eftir morguninn (hjálpaði ekki að læknirinn var ekkert sérstaklega bjartsýn á langa meðgöngu…), en upp úr kaffitíma (ætli það hafi verið bláberin?) fór ég að kætast og tók upp heklunálina. Kerri fór nefnilega í prjónabúð í gær og keypti fyrir mig heil ósköp af garni og nú er stefnan sett á að hekla teppi. Það tók reyndar nokkrar tilraunir að rifja upp hvernig maður heklar bútana, enda einhver níu ár síðan ég stóð síðast í þvílíku (heklaði teppi handa Anthony).
En vöðvaminnið hafði sigur og núna er ég búin að hekla tvo búta. Annan gaf ég Önnu Sólrúnu til að setja í dúkkuhúsið þegar hún og Finnur komu hérna áðan. Ég get svo svarið það að hún hefur stækkað á tveimur dögum! 🙂 Í öðrum fréttum þá kom læknir að tala við mig um keisaraskurði og ég skrifaði undir samþykkt við þvílíkum gjörningi. Frekar óþægilegt samtal. En líklega finnst þeim betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Dagurinn er sem sagt búinn að vera frekar upp og ofan, en sem stendur er allt rólegt og ég er glöð með heklu-verkefnið mitt.