Dagur 3
Jæja, hér er að byrja dagur 3 af rúmlegu. Ég tel miðvikudaginn sem dag 0 því að ég kom svo seint heim að það telst ekki vera heill dagur. Enn sem komið er hefur ekkert sérstakt gerst, og ég held að það hafi lekið minna í gær en daginn þar áður, en það er erfitt að segja. Ekki beinlínis góðir skynjarar þar…
Þetta hefur gengið ágætlega hingað til, ég hef legið uppi í rúmi með kodda út um allt, og fartölvuna mér til halds og trausts. Hleð niður útvarpsþáttum í gríð og erg fré NPR á milli þess sem ég les frétir. Sjónvarpið vil ég ekki sjá, hata auglýsingarnar og svo er efnið bara svo lélegt. Ég þakka einnig kærlega öll símtölin og skilaboðin sem okkur hafa borist. Þykir afar vænt um það. 🙂
Mitt persónulega andlega ástand er svona upp og ofan. Var ekkert sérstaklega beisið þarna á fimmtudeginum, átti kátari dag í gær en ég veit ekki hvað gerist í dag. Er með talsverðar áhyggjur af þessu öllu saman og analísera hverja tilfinningu úr maganum til að reyna að greyna hvort þetta sé “sýkingarverkur” eða byrjun á hríðum eða hvað. Nýt sparkanna þess á milli, hver veit hvað þau eiga eftir að endast lengi…
Finnur hefur algjörlega tekið yfir heimilisreksturinn og nú er gott að eiga góða að. Anna var að fara í pössun til vinkonu sinnar og svo er sund hjá henni, lúr og svo líklega önnur heimsókn. Á morgun er henni boðið í afmæli til Kötlu og svo í aðra heimsókn seinna um daginn. Þess fyrir utan líkar henni svona líka vel í nýja bekknum, og ég held að hún sé að mestu búin að sætta sig við að hún fái ekki lengur seríós við brottför.
Við vorum líka að fatta að við erum vel í stakk búin með hitabrúsa og kælibox, svo Finnur getur einfaldlega útbúið nesti fyrir okkur mæðgur á morgnana og þá ætti þetta að ganga. Ég býst samt við að fá einhverjar hádegisheimsóknir frá stelpunum úr skólanum, en það er ekkert búið að skipuleggja það sérstaklega því að ég veit ekki hvað næsta vika ber í skauti sér.
Hvað varðar “það sem getur gerst” þá getur allt farið til fjandans núna á næstu 10 dögum eða svo og þá er þetta bara búið. Eftir það held ég að þeir taki mig inn á spítala og byrji að pumpa inn sterum fyrir lungnaþroska, sýklalyfjum og ég veit ekki hvað – og svo er að bíða og sjá hvað setur. Þetta gæti skakklappast áfram í einhverjar vikur en það er ómögulegt að segja til um hvað gerist. Svona óvissa er ekki beinlínist það skemmtilegasta í heimi, en ég er að eðlisfari frekar fatalistísk og til að vera söm sjálfri mér þá þarf ég eiginlega að bíða bara og sjá hvað setur.