Dagur 2 að kvöldi kominn
Þar með er spítaladagur númer tvö farinn að síga á seinni partinn, klukkan rúmlega sjö að kvöldi til. Sem betur fer svaf ég ágætlega í nótt, og vaknaði töluvert kátari en daginn áður. Ekki búin að gera mikið í dag, aðallega bara reynt að hvíla mig og jú farið á klósettið á rúmlega klst fresti…
Ekkert mikið gerst í dag svo sem, ég er búin að fá steraskammtana til að flýta fyrir lungnaþróun, var að klára síðasta sýklalyfjaskammtinn í æð og jú svo var kíkt á vökvann á barni A með litlum sónar. Það virtist sem að það væri kominn aðeins meiri vökvi en fannst í síðustu viku, en það verður ekki “almennilegur” sónar fyrr en í næstu viku. Með því á ég við bæði vöxtur og vökvi verður athugaður í stórri sónargræju á þriðjudaginn.
Nú stefnir í 5 daga pillu-sýklalyfjaskammt og áframhaldandi eftirlit. Það er reyndar ágætt að vera hérna inni þessa dagana, því að í gær og í dag er víst búið að vera ferlega heitt úti og ég hefði örugglega ekki verið kát heima í rúminu. Svo er gaman að geta valið sér mat af matseðli (þó svo að maturinn sé svo sem ekkert neitt svaaakalega góður, ódýr hráefni og svona).
En sum sé, engar fréttir eru ennþá góðar fréttir. Látum þar við sitja.