Dagur 13: Einkaherbergi
[I’ve moved again! They just moved me into a private room (the previous occupant delivered this morning and I was next on the list), and now my phone number ends in 50. Fairly quiet day, they let me be most of the morning so I got some sleeping done, and Finnur visited around noon-time. Had my daily leak already, and things are quiet now. Just waiting for dinner to arrive. I hope they find me in my new room!]
Enn aðrir flutningar! Nú er ég komin á einkastofu, því að konan sem var hérna átti í morgun og ég var næst á listanum. Glugginn minn snýr í hina áttina svo nú horfi ég inn í spítalagarðinn sem er minna spennó en fjöllin í fjarska, en það er í lagi. Nú losna ég líka við síðdegissólina sem bakar allt. Nýja símanúmerið er það sama og í hinu herberginu, nema að það endar á 50 (plús þrír held ég frá gamla númerinu).
Annars rólegur dagur. Var látin merkilega mikið í friði í morgun og þar sem fyrsti læknirinn kom ekki fyrr en sjö, þá náði ég heilum þremur tímum í einum rykk! Finnur kom svo í hádeginu og ég slyttaðist í sturtu um fjögur. Fékk að vita um flutningana klukkan fimm og nú er hún rúmlega 6 og ég er að bíða eftir kvöldmatnum.
Það lak að vanda í dag, en það var voða svipað og í gær og daginn þar áður, svo ég er ekki svo áhyggjufull. Nú er planið að mónitora mig tvisvar á dag, á morgnana og svo á kvöldin, og þá er hlustað eftir hjartsláttunum (sem hafa fengið góða dóma hingað til) svo og samdráttum hjá mér sem koma og fara hingað og þangað því ég er með óstýrlátt leg sem leiðist að láta hlusta á sig. En sum sé, engar fréttir eru góðar fréttir og vonandi næ ég að njóta nýja herbergisins í margar vikur. 🙂