Á spítala (Dagur 1)
Jæja, best að fylla upp í smá tímaeyðu. Við Finnur fórum sem sagt til sérfræðingsins í gær og hún vildi leggja mig inn til að fá “viðmiðunarmælingar” til að geta borið saman við seinna tíma ástand. Mér var parkerað inni í litlu gluggalausu herbergi á fæðingardeildinni og þar var settur upp æðaleggur (til að drekkja mér í sýklalyfjum) og dregið blóð, hitinn mældur og blóðþrýstingurinn líka, en hann hefur sem betur fer hagað sér vel það sem af er dvölinni.
Finnur fór og náði smá dót heima og bloggaði á meðan ég reyndi að koma mér þægilega fyrir á annars frekar óþægilegu rúmi. Þetta rúm er nefnilega hannað fyrir konur sem eru að fara að eiga og því auðvelt að þrífa og taka í sundur en erfitt að liggja í (þunn dýna). Læknirinn var að íhuga að stinga nál í belginn hjá A og sprauta inn litarefni til að greina á óyggjandi hátt hvað væri í gangi, en ég var með slatta mikið af samdráttum svo það var hætt við það í bili.
Eins og mig grunaði þá snarminnkuðu samdrættirnir um leið og ég fékk að borða kvöldmat, enda ekkert búin að borða í meira en 6 klst! Finnur fór svo heim og gaf Önnu að borða, en seinna um kvöldið kom hann aftur og við töluðum við lækni af ungbarna-gjörgæslunni. Það var frekar súrrealískt samtal, um það bil ekkert gott um það að segja að eignast börnin á næstu tveimur vikum, eða næstu fjórum vikum ef út í það er farið.
Ég átti síðan frekar leiðinlega nótt. Svaf lítið, enda umgangur í herberginu því ég fæ sýklalyf í æð fyrstu tvo dagana með reglulegu millibili. Um miðja nóttina kom svo smá leki og það var staðfest að hann væri að koma úr legháls-gatinu (og leginu þar með líklega). Það hélt mér ennþá meira vakandi og í lok nætur var ég nú bara komin á fremsta hlunn með að slútta þessu bara. En það er víst ekki gott að taka stórar ákvarðanir svefnlaus um miðja nótt svo ég beit á vörina.
Í morgunsárið náði ég aðeins að lúra, en ekki mikið. Finnur kom með byrgðir af ávöxtum og seríosi því maturinn var ekki upp á marga fiska og síðan leið og beið þar til ég var loksins færð yfir á “biðdeildina”. Sú deild er inni á sængurkvennadeildinni og það er nú lúxusdvöl miðað við fæðingardeildina. Hér fæ ég að velja mér hvað er í matinn af matseðli, fékk áðan fínt te með súkkulaðihúðuðu jarðarberi og snittubrauði. Það besta er að rúmið er alvöru rúm! Ég er með herbergisfélaga sem er með rofinn belg (eins og ég) komin 29 vikur á leið og ég skal viðurkenna að vera örlítið abbó.
Hins vegar gat ég ekki verið nema himinlifandi hamingjusöm og glöð með henni Soffíu sem kom í stutta heimsókn með prinsana sína, þá Atla Frey og Breka Frey. Algjörir englar og þvílíkt myndarlegir.
En sum sé, það lítur út fyrir að ég verði hérna í einhvern tíma, jafnvel alveg fram að fæðingu, hvenær sem það gerist. Við sjáum hvað setur.