Veisla til heiðurs kennurunum
Lífræna vekjaraklukkan mín (Anna Sólrún) brást mér í morgun; vakti mig ekki fyrr en klukkan hálf níu. 🙂 Ég hafði gert ráð fyrir að hún vekti mig klukkan 7:30 eða þar um bil sem hentaði vel þar sem ég ætlaði að baka bollur fyrir veisluna sem við áttum að mæta í síðar um morguninn – veisla til heiðurs kennurunum hennar Önnu. Það var því allt sett á annan endann á heimilinu til að gera okkur klár fyrir veisluna: blanda í deigið, koma mat ofan í Önnu, borða sjálfur og fara í sturtu, setja rúllurnar í hárið, mála sig, hnoða og baka brauðið og gera Önnu klára til brottfarar. Um leið og brauðið var tilbúið var rokið með það út í bíl og brunað af stað norður eftir til foreldra Ellu (vinkonu Önnu) og mætti ég þar rúmum hálftíma á eftir áætlun. Nema hvað, þegar ég renni í hlað tek ég eftir því að það er enginn mættur; enginn bíll sjáanlegur nema bíll pabba hennar Ellu og runnu því á mig tvær grímur þar sem ég hafði rokið út í flýti, gleymt sundskýlunni hennar Önnu og ekki athugað hvenær átti að mæta nákvæmlega. Ég sá fyrir mér að ég hefði kannski verið að skoða vitlausan sunnudag á dagatalinu, kannski er veislan viku síðar en ég hugsaði með mér að það gæti ekki verið.
Sem betur fer mættum við á réttum degi og bara aðeins á undan auglýstum upphafstíma en ekki tæpum klukkutíma of seint eins og ég hélt (veislan byrjaði 11 en ekki 10) þannig að við létum bara fara vel um okkur og reyndum að hjálpa til við undirbúninginn. Veislan var annars fín; grillmatur plús hlaðborð sem gestirnir sáu að mestu um og svo risa súkkulaði-kaka og smákökur í eftirrétt. Anna skemmti sér konunglega; eyddi mestum parti degisins nakin í bakgarðinum að busla með hinum krökkunum í buslulauginni á meðan fullorðna fólkið slappaði af í skugga af sólinni.
Og svona í lokin, smá gullkorn frá Önnu frá því í gær. Ég gaf henni skál af hindberjum og hún dundaði sér við það að stinga tíu stykkjum á fingurna sína (einn á hvern fingur). Þegar hún hafði lokið við að raða þeim öllum á fingurna á sér fór hún allt í einu að syngja hástöfum:
“Ten little monkeys, jumping on the bed! One fell off and bumped his head!” [gleypir eitt hindber og smjattar á því]
“… Mama called the doctor and the doctor said ‘No more monkeys jumping on the bed!'”
“Nine little monkeys, jumping on the bed! One fell off and bumped his head!” [gúlp!]
o.s.frv. o.s.frv.