Læknisheimsókn
Eyddi deginum að mestu í rólegheitum heima með svona stress-tak í hausnum. Fór svo að hitta fæðingarlækninn og sagði honum upp og ofan af því sem hefur verið að gerast. Hann kíkti með sínum sónar og sagðist finna sæmilegan poll af legvatni hjá barni A. Hann vildi amk ekki gúttera að þetta væri alvarlegt ástand (fannst “stuck twin” heldur harkaleg greining), og endurtók það sem sónarfólkið sagði, sum sé að þar sem fylgjurnar greindust tvær fyrr á meðgöngunni, þá er óvenjulegt og ólíklegt að upp komi ástand þar sem annar tvíburinn éti frá hinum í gegnum fylgjuna (sem er afskaplega hættulegt).
Hvað um það, hann sagði mér að fara endilega í sónar eftirskoðunina eftir tvær vikur og að panta tíma hjá sér seinna sama dag svo að ég þyrfti ekki að bíða yfir nótt með að diskútera niðurstöðurnar við sig. Ég kunni ágætlega við þann punkt, greinlegt að maðurinn hefur 22 ára reynslu í að díla við paranojd ófrískar konur… 🙂 Mér létti sem sagt aðeins eftir þann fund en ætla að halda áfram að reyna að taka því rólega og lúra þegar ég þarf á því að halda.
Í fyrramálið ætla ég reyndar að fara með Önnu Sólrúnu í sína fyrstu heimsókn í “stóru krakka bekkinn” en hún á að byrja þar fjórða júní. Við verðum þar í svona tvær klst og svo fer hún aftur í sinn bekk. Það verður skemmtileg tilbreyting að fara upp um bekk því það er orðið verulega þröngt um krakkana í gamla bekknum hennar, þau eru öll orðin svo stór.
Nýi bekkurinn verður með 22 krakka í staðinn fyrir 15, en stóri munurinn er að hann nær yfir tvo árganga, en ekki bara einn eins og allir hinir bekkirnir. Það má því eiga von á því að hún taki stór stökk í þroska við að umgangast eldri krakkana – í augnablikinu er hún næst elst í sínum bekk og því ekki eftir neinum að apa nema jafnöldrunum. Annað sem breytist er að við þurfum bara að hjálpa til í klst á viku sem léttir lífið og jú, mánaðargjaldið fer niður í um $1250 (um 80 þús isk á núgengi).