Hrefna á leið heim
Jæja, þá er Hrefna lögð af stað í flugferð til Íslands – lendir á mánudaginn og stoppar í rúma viku. Við Anna ætlum að hafa það gott heima í kotinu á meðan. Ef ég man rétt er gemsanúmerið hennar Hrefnu 8672717 – ef þið viljið ná í hana á meðan hún er heima.
Þetta eru annars tíðindamiklar vikur, bæði síðasta vika og þessar næstu tvær því Hrefna er á Íslandi að freista þess að framlengja vísað fram á næsta ár, við fáum að vita hvernig verður með íbúðarmál (hvort við fáum stærra húsnæði undir tvíburana á háskólalóðinni eða hvort við þurfum að flytja) og svo fáum við að vita kynin á tvíburunum eftir að Hrefna kemur aftur. Í ofanálag var síðasti dagurinn minn hjá Grínborder á föstudaginn, búið að selja fyrirtækið og ég byrja í nýrri vinnu hjá kaupandanum á mánudaginn (nánar um það síðar).
Flestum var reyndar sagt upp daginn áður (á fimmtudeginum) og við söfnuðumst þá saman í eldhúsinu og opnuðum nokkrar kampavínsflöskur sem við fundum í ísskápnum (leyfar úr e-u partíinu). Við þetta tækifæri voru jafnframt rifjaðar upp sögur af skrautlegum uppákomum í sögu fyrirtækisins, skálað fyrir vel völdum einstaklingum, bæði grátið og hlegið, og fólk faðmað og kvatt. Það voru blendnar tilfinningar gagnvart þessum tímamótum meðal fólksins, því að flestum var bara sagt upp þegar fyrirtækið var selt þar sem nýja fyrirtækið hafði bara áhuga á að ráða sex einstaklinga af þróunardeildinni. Ég er nokkuð sáttur þar sem ég fylgi með í samningnum og er spenntur að byrja í nýrri vinnu. Vinnustaðurinn nýi er ekki af verri endanum – greini frá því síðar. 🙂 Hins vegar ætla þeir sem ekki voru ráðnir að leita sér að annarri vinnu, sumir þegar komnir með vinnu og sumir ætla að taka sér frí í svolítinn tíma.
Svona í lokin er rétt að greina frá gullkorni Önnu frá því í gær þegar hún söng hástöfum á náttfötunum hér niðri: “HÖFUÐ, HERÐATRÉ OG TÆR!” 🙂