Dekurdagar í gúgúl
Jæja, þá er fyrsta vikan hjá gúgúl liðin.
Tímanum var mest megnis eytt í að sitja námskeið, koma mér fyrir á nýjum vinnustað og kynna mér hvað er í boði. Ég lifði þetta af stórslysalaust, en litlu mátti muna í einstökum tilfellum. Til dæmis þegar ég stóð við hlaðborð í einu mötuneytinu og raðaði á matarbakkann. Þegar ég hafði lokið mér af, sný ég mér við og rekst næstum því á annan af tveimur stofnendum gúgúl! Það munaði *svona* litlu [ímyndið ykkur þumalfingur og vísifingur nánast alveg saman] að ég málaði hann allan með “dim sum” matnum mínum og sushi rúllunum (og tilheyrandi soja-sósu og wasabi). Ekki það að ég hafi áhyggjur af því að hann hafi ekki efni á nýrri skyrtu (samkvæmt Wikipedia er hann yfir sextán milljarða dollara virði) heldur hefði ég það sem eftir er verið þekktur sem gaurinn sem á fyrstu vikunni sinni tókst að hella matnum sínum yfir Sérgei. Ég slapp þó naumlega við þau örlög. Hjúkk! 🙂
Þetta var annars í annað skiptið sem ég sá stofnendurna tvo með eigin augum (þriðja skiptið átti sér stað seinna um daginn) og það virðist sem þeir séu samvaxnir á mjöðm því ég sé aldrei annan án þess að hinn sé þar við hliðina á. 🙂
Ég þarf annars að passa mig vel á að ofdekrast ekki hérna. Á fyrstu vikunni komst ég aðeins í að prófa 6 af 13 hágæða gúgúl mötuneytum, en þau bjóða upp á ókeypis morgun-, hádegis- OG kvöldmat með heilsusamlegu hráefni (og fyrirtækið sér fyrir mat um helgar). Og þá eru ótalin snakkstöðvarnar sem eru á hverju horni, öll með tiltölulega heilsusamlegu snakki (ávextir og svoleiðis) sem og smá óhollt inn á milli eins og kartöfluflögur eða emm og emm með eða án hnetum. Ef ég væri feitari þyrfti ég að passa mig á að fitna ekki – hefði reyndar ekkert á móti því að bæta á mig nokkrum kílóum… og ég virðist hafa rambað á rétta staðinn fyrir það. 🙂 Það er kannski ágætt að það eru tvær ókeypis líkamsræktarstöðvar á staðnum. 🙂
Ég náði að prófa eitt af tveimur gúgúl þvottahúsum á föstudeginum. Mætti með þvottinn á bakinu, vasann fullan af “fimmtíu”-köllum og flösku af þvottaefninu okkar sem Hrefna sérvaldi sem lyktarlaust og gott þvottaefni sem er ekki jafn skaðlegt fyrir náttúruna og mörg önnur. Að sjálfsögðu er það fyrsta sem ég sé þegar ég geng inn eru hillur fullar af nákvæmlega sama þvottaefni og ég var að burðast með í vinnuna!! Hillurnar voru bókstaflega þéttsetnar af þvottaefninu okkar. Og ég hefði betur skilið klinkið eftir heima því að þetta var að sjálfsögðu allt ókeypis.
Svo er líka læknir á staðnum, sem og klipparar (þarf að prófa það í næstu viku), efnalaug, og nuddarar svo fátt eitt sé nefnt. Við fengum gjafabréf fyrsta daginn: heil klukkustund í nuddi. Bíllinn fær einnig jafn góða meðferð þar sem hér er fólk sem þvær bílinn og hægt að láta skipta um olíu á meðan maður er í vinnunni. Reyndar er þetta sem upp er talið í þessari málsgrein ekki ókeypis, en skratti gott engu að síður. 🙂 Og já, mér krossbrá þegar ég settist á klósettið í fyrsta skipti því sumar klósettsett-seturnar eru upphitaðar og á veggnum eru einhver stjórntæki sem ég þori ekki einu sinni að snerta – maður veit aldrei hverju maður á von. 🙂 Ég sé alltaf fyrir mér Sval og Val bókina þar sem Svalur (Valur?) endaði á Zorglúbb færibandinu sem spýtir út úr sér hlýðnum þegnum í réttum einkenningsbúningi. 🙂
Ég á enn eftir að prófa rafdrifnu scooter-ana sem maður getur notað ef maður fer milli bygginga en hef þegar prófað eitt af “almennings”-hjólunum sem maður má taka og skilja eftir við e-a gúgúl bygginguna.
Brátt verður maður svo spilltur að maður lítur ekki við farartæki sem maður þarf að erfiða við til að koma sér á áfangastað… 🙂