Ævintýri gærdagsins
Hann Jón hennar Gunnhildar (sem er systir pabba) kom hingað norður eftir á föstudaginn í þeim erindagjörðum að taka viðtal við Helga Tómasson balletstjóra í San Fran á laugardeginum. Það gekk eftir og þeir áttu víst ágætis spjall saman. Um tveimur tímum fyrir sýningu fékk Jón svo að vita að hann fengi tvo aukamiða á sýningu kvöldsins á Don Quixote, og hann byrjaði frantically að reyna að ná í okkur.
Finnur var hins vegar í búðinni og ég úti með Önnu, svo hann náði ekki í okkur fyrr en um einum og hálfum tíma fyrir sýningu (og það tekur klst að keyra upp eftir). Það kom í ljós að bæði barnapössunarpörin okkar voru vant við látin þetta kvöld, svo Finnur fórnaði sér og var heima með Önnu Sólrúnu á meðan ég henti mér í aðeins skárri föt og lagði af stað upp í borg með nestispoka (ekki búin að borða kvöldmat) og 65 mínútur til stefnu.
Á leiðinni upp eftir hringdi ég í þá sem mér datt í hug að gætu viljað í ballett, en allir voru uppteknir eða þá of langt í burtu. Þegar upp í borg kom þá fann Jón mig í bílastöppunni við bílastæðahúsið og við vorum ekkert smá heppin því að við fengum eitt af síðustu 10 stæðunum í öllu húsinu (efst upp á þaki að sjálfsögðu).
Við komum okkur þægilega fyrir í eðalsætum, á neðstu hæðinni við ganginn vinstra megin, og fyrr en varði hófst ballettinn. Það skal tekið fram að þetta var fyrsta balletsýning okkar beggja, svo við kunnum líklega ekki alveg að meta fínheitin. En þetta byrjaði vel og það var hoppað og snúist og hópdansað og allegræj.
Undir lok fyrsta leikþáttar (af þremur) dró hins vegar til tíðinda því að aðalkvendansarinn datt illa, meiddi sig í hnénu sýndist mér, gat ekki staðið upp og var all skyndilega borin út af sviðinu af aðalkarldansaranum! Meðdansararnir gerðu einhverjar krúsídúllur og síðan fór tjaldið niður og okkur var tilkynnt að vegna meiðsla yrði gert smá hlé.
Helgi sjálfur kom síðan skömmu seinna út á svið og sagði að það yrði 15 mín hlé á meðan hugað væri að meiðslum. Eftir þann tíma kom önnur tilkynning um að verkið myndi hefjast aftur eftir 15 mín og byrja beint á leikþætti tvö.
Það stóð eftir og nú var komið nýtt aðaldanspar sem leysti sitt verk af með mikilli prýði. Það kom líka í ljós að áhorfendurnir voru staðráðnir í að láta dansarana vita að þeir stæðu við bakið á þeim, og það var mikið klappað, af töluvert meiri ákafa en fyrir slysið. Leikþáttur tvö rann sitt skeið slysalaus og í lok hans kom aðaldansparið fram fyrir tjaldið og fékk blóm frá Helga.
Það var í þeim leikþætti sem við fengum að sjá svona “klassískan” ballett (dulbúinn sem draumasena), sem mun víst vera fastur liður í svona balletsýningum þar sem fólk er almennt ekki klætt í hvít tútú-pils. Mér fannst það alveg merkilegt að bróðurpartur kvennanna á sviðinu fúnkeraði sem lifandi leikmynd, það er hreyfði sig örlítið til og stóð síðan grafkyrrt í alls konar pósum á meðan sólódansarar gerðu sitt. Merkilegt að fara í gegnum alla þessa þjálfun til þess helst að standa kyrr.
Hvað um það. Í þriðja leikþætti kom aðaldansarinn úr fyrsta þætti aftur og enn ein aðaldanskonan! Undir lokin leystist þetta (brúðkaup þeirra) upp í svona “sjáðu hvaða brjálæðislegu listir (snúninga/hopp/táslujafnvægi) ég get gert”-sýningu en flott var það.
Í lokin reis allur salurinn á fætur og það var mikið klappað. Blóm voru afhent og slasaða ballerínan kom í lokin (með spelku um hnéið) og færði mótdansara sínum blóm. Þegar við komum heim lásum við að þessi aðalkarldansari hefði verið að dansa sinn síðasta dans í San Fran sem skýrði öll fagnaðarlætin.
Mér fannst það annars áhugavert með ballerínuna sem datt, að fyrst þegar hún kom út á sviðið fannst mér henni tvisvar skrika örlítið fótur, svona eins og einn skórinn hennar væri örlítið sleipur. Kannski var hún bara þreytt? Hver veit en ég vona að hún jafni sig fljótt!
Allt í allt var þetta skemmtileg sýning, söguþráðurinn reyndar frekar lítilfenglegur og Don Quixote hafði minnst með málið að gera þó hann fengi reyndar að ráðast á vindmyllu. Það er meiri að segja ekki ólíklegt að ég fari einhvern tíman aftur á sýningu, sérstaklega ef við getum smogið inn fyrir $10 á stúdentamiðum og fengið að standa aftast á neðstu hæðinni… 🙂
Í öðrum fréttum er að ég dró Önnu Sólrúnu á sitt fyrsta sundnámskeið í hádeginu í gær. Þar sem hún er eldri en þriggja ára þá er sá háttur hafður á að foreldrarnir halda sig á bakkanum á meðan börnin (fjögur í hóp) svamla um með kennarar. Önnu Sólrúnu leist nú ekki betur á en hún grét allan tímann (í hálftíma) þó svo að undir lokin væri hún farin að fylgjast með hinum krökkunum inn á milli grátrokanna.
Ég dáðist að þolinmæði kennslukonunnar, sem fékk að þola öskur í eyrun á sér og kyrkingartak frá Önnu Sólrúnu en náði samt að æfa strákana þrjá sem voru greinilega vanir. Við ætlum að sjá til hvort Anna slaki ekki aðeins á á næstu vikum, hún gaf það amk til kynna að hún myndi líklega ekki þurfa að gráta næst…