Tiltekt
Ég fór á fætur með Önnu Sólrúnu í morgun, og þegar við vorum búnar að borða var kveikt á Dýrunum í Hálsaskógi og ég fór að taka til í eldhúsinu. Þetta var svona vor-hreingerningarlegt því að ég opnaði skápana og henti út öllu útrunnu dóti (nema kryddinu, nenni aldrei að fara í gegnum það). Henti líka út gömlu teflon standpönnunni (Finnur varð svoldið dapur) en nú er líka pláss fyrir hægsuðupottinn inni í skáp svo hann þarf ekki að búa lengur á uppþvottavélinni. Svo má ekki gleyma lyfjakörfunni (höfuðverkjalyf og vítamín og svoleiðis) sem var við það að flæða upp úr, en ekki lengur því við nánari skoðun kom í ljós að helmingurinn af lyfjunum var útrunninn.
Í miðju kafi tók ég pásu og fór út með ruslið og var þá ekki nágranninn líka í sinni dyragætt með dóttur sína. “Krapp” hugsaði ég því ekki var ég beinlínis klædd til mannlegra samskipta, haldaralaus í of stuttum stuttermabol og íþróttabuxum. Hann er hins vegar svo ferlega almennilegur að ég gat ekki bara strunsað fram og til baka, heldur spjallaði aðeins við manninn. Sem betur fer kom Anna Sólrún mér hálft í hvoru til bjargar, en hún hafði að sjálfsögðu elt mig út.
Á höfðinu var hún með flísteppi (sem hafði verið prinsessukjóll stuttu fyrr) og þar sem ekki gengur að hlaupa um með flísteppi, þá rétti hún mér það og þar með var komin ágætis velsæmisbrynja fyrir mig þar sem ég stóð með flísteppi bak við krosslagðar hendur…. 🙂
Eftir mannlegu samskiptin hélt tiltektin áfram. Loksins fannst stykkið á símann svo maður geti hengt hann upp á vegg sem Finnur tók að sér og kláraði med det samme. Ísskápstoppurinn var hreinsaður (þar kom ýmislegt í ljós) og við vorum við það að halda áfram þegar Anna Sólrún missti glerglas á eldhúsgólfið og það fór í þúsund mola. Þar með fórum við mæðgur upp á meðan Finnur tók gólfin í gegn.
Eftir heldur fátæklegan pasta/pylsu/gufusoði-grænmeti hádegismat þá lögðum við mæðgur okkur á meðan Finnur hélt áfram duglegheitunum. Núna eru feðginin farin út að leika og ég er að íhuga hvort það sé farsælla að ráðast á pappírshrúguna eða toppinn á einhverri hillunni. Hmmmm…
En já, eitt í lokin. Nú er Finnur endanlega búinn að eyðileggja fyrir mér internet-vafur því hann kynnti mig fyrir svona les-forriti (frá Gúgul, en ekki hvað) sem fylgist með þeim vefsíðum sem maður vill og lætur mann vita þegar það birtist eitthvað nýtt. Þar með fæ ég nú beint í æð ef einhver skrifar eitthvað nýtt á dagbókina sína, en á móti kemur að gleðin við að smella á ótal linka er flogin út í veður og vind, og ein vinsælasta tímaeyðslan mín líka…