Ó mig auma
Ég er með slæmt kvef. Þetta byrjaði sem hálsbólga á föstudeginum, og hefur síðan farið stigversnandi. Ég skal viðurkenna að mér fannst frekar skondið að pestin hélt sig eingöngu hægra megin í hausnum alla helgina, en í nótt breiddi hún úr sér og allur hálsinn logaði. Hálsinn hefur reyndar slakað á síðan þá, en í staðinn er hægra nefholið að offramleiða slím og hægra eyrað er allt uppblokkað og hellulagt. Held samt að ég sé bara með nokkrar kommur af hita í versta lagi, en sjúskuð er ég samt.
Svaf af mér morguninn eftir að Finnur og Anna fóru sínar leiðir, og núna sit ég og reyni að koma mér að verki. Er samt ferlega meðvituð um það að veikir hausar eru lélegir að forrita og er hálf hrædd við klaufamistök og rugl. Á meðan ég safna kjarki les ég um skotbrjálæðið í Virginíu og hristi hausinn yfir því að fólk sé að kvarta yfir því að nýlegri tillögu um að fólki með byssuleyfi mætti vera með byssur á kampus hafi verið hafnað. Hvernig væri nú að losa sig við byssurnar í öllu fylkinu í staðinn?! #andvarp#
Ekkert að frétta annars nema að ég las eftirfarandi vinnuheit hjá henni Ernu sem er í doktorsnámi:
“Ég er líka búin að setja mér vinnureglur sem gilda eiga fram yfir doktorsvörn:
1. Ekki vinna meira en 70 tíma á viku.
2. Taka mér einn 90% frídag á viku (þ.e. á sunnudögum má ég bara vinna í klukkutíma, en oftast þarf að gefa frumum að éta og svo framvegis og undirbúa fyrir mánudaginn).
3. Æfa 3x í viku til að halda heilsunni.
4. Vera mætt klukkan 7:30 í vinnuna mán-fös, en klukkan 10 ef ég vinn á laugardögum.”
Hjá mér er gott að ná fjórum klst af vinnu á dag. Ef ég næ að vinna bæði fyrir og eftir hádegi, þá er það frábær dagur! Ætli þetta sé metnaðarleysi, leti, almenn þreyta, eða eitthvað annað? Kannski er ég bara að spara drifkrafinn minn? Tók reyndar hörkudag á miðvikudaginn í síðustu viku, en var líka í tvo daga að jafna mig eftir það. Hvað um það. Ég er hérna enn og ekki búið að reka mig úr skólanum ennþá. Við sjáum hvað setur… 🙂