Á batavegi
Jæja, þá er það versta afstaðið held ég og kvefið tekið að kveðja. Ég er reyndar ennþá með hálsbólgu og nefrennsli, en mesti haus-þrýstingurinn er farinn. Ég veit ekki hvort það sé “sjávarspreyinu” að þakka, en hjúkkan sem ég talaði við í gær mælti með svona salt-nef-spreyi og það virðist amk ekki hafa gert kvefið verra.
Annars er örlítið búið að saxast á verkefnalistann sem ég býsnaðist yfir um daginn. Fékk “candidacy”-framlengingu til desemberloka 2008 sem þýðir að nú get ég farið að vinna í landvistarmálum. Slæmu fréttirnar eru þær að gæinn sem sér um landvistarleyfin hérna var svolítið svartsýnn á að yfirvöld leyfðu mér að skipta um vísategund án þess að yfirgefa landið. En það þýðir samt ekki að maður geti ekki reynt. En þetta gæti orðið eitthvað skrautlegt…
Svo sótti ég um húsnæði á kampus fyrir næsta ár núna áðan. Við erum búin með “forgangsárin” okkar svo nú erum við komin í lotteríið aftur og allt getur gerst. Við fáum að vita niðurstöðuna úr lotteríinu þann 26. maí og ef við fáum úthlutað húsnæði, þá er von á flutningum í júlí/ágúst. Ef við fáum ekki úthlutað húsnæði þá förum við á biðlista. Þeir byrja að hleypa inn af biðlistum í júlí víst, en ef við fáum ekkert þá eigum við að flytja út af kampus 19. ágúst og væntanlega inn í leiguhúsnæði.
Það mun víst vera einhver séns að væla í kerfinu, en ég ætla að bíða með það þangað til að lotterí-niðurstöðurnar birtast. Þannig veit ég að ein fjölskylda bjó í heilt ár á kampus eftir að nemandinn útskrifaðist (hann var að vinna á kampus) því að þau eignuðust einmitt tvíbura í viðbót við hin tvö börnin. Við sjáum hvað setur.