Föstudagur 6. apríl 2007
Kósí fyrir framan tölvuna
Ég er á því að ég endist ekki mjög lengi þessa dagana sitjandi upprétt. Mesta blóðflæðið (pump, pump, pump) er þessa dagana í kviðarholinu, og ekki mikill almennur áhugi á að ýta blóði alla leið upp í heila. Ég hef því tekið þá stefnu að reyna að vinna bara svona útafliggjandi og fyrstu þrjá daga vikunnar mætti ég því með vinnufartölvuna hans Finns í skólann, kom mér fyrir á stærsta sófanum á hæðinni (sem reynist vera við hliðina á skrifborðinu hennar Söruh) og vann þar.
Svo kom að því að ég þurfi að fara að matlab-stússast og þá voru góð ráð dýr því að fartölvan er með svo litlum skjá að hún er ónothæf í svoleiðis pælingar. Sarah stakk þá upp á því að ég kæmi mér þægilega fyrir fyrir framan tölvuna á Ikea stólnum okkar með fótskemil og alles, og núna hálfligg ég því eins og slitti með lyklaborðið í kjöltunni og reyni að krafsa mig áfram með pappírinn minn.
Sem stendur ganga skrif hægt, ég er að vinna að útgáfu 3 (minn proffi á það til að fara yfir 10 útgáfur áður en hann er kátur) og ennþá fullt sem þarf að bæta og laga og endurhugsa og stöff. Og allt gengur þetta á lúsarhraða og ég má hafa mig alla við að panikka ekki með þetta allt saman. Þyl “þetta reddast” í hausnum og reyni svo að halda áfram.
Það hjálpar að mesta þreytan virðist vera að líða hjá þó svo að enn taki ég mér lúra hér og þar. Ég reyni að passa mig að borða oft en lítið í einu, og það virðist halda mér gangandi. Ekkert að frétta af tvíbbamálum annars, þetta er ennþá frekar óraunverulegt en ég er samt að íhuga hvort ég eigi að skipta yfir í “high-risk” fæðingarlækni. Næsta skoðun er 23. apríl svo ég spyr líklega þá.
Af Hollu og Óla er víst allt ágætt að frétta. Þau eyddu nokkrum (köldum) dögum í New York en eru líklega einmitt núna við það að fara í loftið til Íslands. Það hefur verið heldur tómlegt hérna heima við, en því verður ekki neitað að Anna Sólrún virðist hafa róast við brottför þeirra (enda ekkert smá spennt yfir Ágústu Maríu) og hún kann líka ágætlega við að hafa endurheim dótaherbergið sitt. Skrítið hvað svona gestagangur er tvíhliða, annars vegar gaman að hafa félagsskap og hins vegar breytir það “lífinu eins og venjulega”.
Páskahelgi framundan. Líklega verða máluð egg á morgun (eigum eftir að skipuleggja) og svo er hádegismatur hjá Siggu og Mario á sunnudaginn. Mér finnst ég þurfa að vinna alla helgina, en það er líklega ekki raunhæft. Þarf mína hvíld víst, og svo er ég að hugsa um að detta í nýtt “guilty pleasure” og kaupa fyrsta seasonið af House þáttunum sem ég horfði aldrei á á sínum tíma, en er dottin inn í núna. Skamm skamm ég!