Mánudagur 9. apríl 2007
Ný vika
Illa gert af okkur að skilja bloggið eftir á Önnu með 40 stiga hita! Hvað um það, hún jafnaði sig fljótt og var bara með örfáar kommur allan sunnudaginn. Við fengum svo að vita að það hefðu ekki ræktast neinir streptókokkar, svo að mér dettur helst í hug að hitinn hafi verið þegar tveir mismunandi vírusar rákust á í kerfinu. Hún nefnilega byrjaði með hálsbólgu en í gær var komið nefkvef líka. Fjör fjör!
Hún er svo núna á leikskólanum á meðan ég reyni að koma mér aftur í vinnugírinn sem hefur gengið bölvanlega í dag. Er í einhverju þreytukasti og bara vil helst vera einhvers staðar annars staðar en fyrir framan tölvuna. Kannski að ég fari bara í göngutúr! Skondið annars að leggjast niður og finna búmp, búmp, búmp hjartsláttinn sem aðallega heldur sig í kviðarholinu.
Hvað um það. Við áttum ljúfan páskadag. Buðum Augusto og Söruh í lambalæri og matargerðin gekk svo vel að Finnur hafði orð á því að þetta væri minnst stressaðasta stórmáltíð sem hann hefði nokkurn tímann komið að. Maturinn var ljúffengur, og jarðaberja-rabbabara-bakan sem Sarah bjó til var snilldar punktur yfir i-ið. Þess fyrir utan endurheimti Anna Sólrún endanlega dótaherbergið, því að Finnur tók sig til og þvoði stórþvott (sjö þvottavélar í allt) og ég tók í sundur rimlarúmið. Þar með hurfu síðustu leyfar að veru H, Ó og ÁM. #angurvært andvarp#. 🙂
Svo má ekki gleyma að Anna amma í Mosó tók sig til að valdið málshætti að handahófi úr málsháttabókinni sinni fyrir okkur, því engin áttum við páskaeggin. Finnur fékk “Erfitt verður þeim sem illa kann”, ég fékk “Ekki sigla allir sama byr” og Anna Sólrún fékk “Segðu það steininum heldur en engum”. Svo valdi hún málshátt fyrir tvíburana – leitaði að orðinu tveir og fékk: “Betur mega tveir en einn”. Takk fyrir það Anna! 🙂