Sunnudagur 15. apríl 2007
Varúð! Heitt vatn!
Þegar ég set Önnu í bað hef reynt að brýna fyrir henni að hoppa ekki ofan í fyrr en hún er viss um að hitastigið á vatninu sé ekki of heitt. Stundum hef ég viljandi haft vatnið aðeins of heitt (bara of heitt til að vera óþægilegt, ekki nóg til að brenna sig) svo að lexían greypist í huga hennar.
Í gær var hún greinilega að melta þetta allt saman því hún sagði við mig: “pabbi, næst þegar Hólmfríður og Óli og Ágústa María koma í heimsókn og þið farið að kafa mundu þá að stinga fætinum fyrst ofan í hafið til að vita hvort það sé ekki of heitt”. Mér fannst þetta nokkuð vel til fundið hjá henni. Hún er greinilega að hugsa um þetta. 🙂
Dagurinn var annars góður (og helgin sömuleiðis), við feðginin fórum saman í Community Day á Stanford háskólalóðinni, hittum þar Adu bestu vinkonu Önnu (með mömmu sinni) og eyddum megninu af deginum í alls konar listaverkagerð, blása upp blöðrur, fórum á Andy Z tónleika (fyrir börn) og drukkum límonaði í sólinni.
Í gær fórum við í heimsókn til Sigga og Jennifer og Anna skemmti sér konunglega við að leika sér við stelpurnar þeirra (Jesiggu og Jóhönnu) í prinsessuleik (með naglalakki og varagloss og öllu) á meðan mamma verslaði sér óléttuföt í kringlunni rétt hjá.
Og já… við settum inn “nýjar” myndir í dag (sjá dálkinn hér til vinstri)! (við erum enn að reyna að ná í skottið á okkur) 🙂