Þar með er það ákveðið
Jæja, búin að kaupa miða til Íslands. Ég lendi eldsnemma mánudaginn 14. maí og fer aftur í loftið síðdegis mánudaginn 21. maí. Á tíma hjá sendiráðinu þann 16. maí og vonandi á þetta allt eftir að ganga! 20 vikna sónarinn verður núna 23. maí í staðinn fyrir 18 maí, svo “hvaða kyn?” spurningin lifir í nokkra aukadaga.
Helgin var annars góð. Fórum í sund í fyrsta sinn í langan tíma með Önnu á laugardeginum og hún var hugrökk í skorpum. Það var líka fyrsti dagurinn í langan tíma þar sem hitinn fór upp í 30 stig. Síðdegis fórum við í grillveislu og hittum núverandi og fyrrverandi vinnufélaga Finns.
Á sunnudeginum hitti Anna Adu um morguninn (þær hjóluðu en Finnur og Dee gengu á eftir) og svo eftir síðdegislúrinn fórum við heim til Noruh og borðuðum þar kvöldmat. Stelpurnar léku sér ágætlega saman þar til eitthvað slettist upp á og Norah endaði á því að bíta heldur fast í vinstri baugfingurinn á Önnu.
Það tók á að fá Noruh til að biðjast afsökunar en hafðist að lokum og þær skildu sem vinkonur. Það verður fróðlegt að heyra hvort þær hafi eitthvað rætt málið á leikskólanum í dag…