Föstudagur 2. mars 2007
Lífið yfir-analíserað
Að því er ég best veit þá er ég eini kvenkyns doktorsneminn í allri deildinni sem á barn. Ein vinkona mín eignaðist son rétt áður en hún útskrifaðist, og hvarf síðan á braut á prófessora-framabraut, og síðan þá hafa nokkrir af strákunum í deildinni eignast börn en vinkonurnar eru barnlausar sem fyrr.
Ég get reyndar vel skilið það að barnseignir eru fjárhagslega erfiðar (gott sem vonlausar) sérstaklega ef báðir einstaklingar eru nemar, en nú er svo komið að nokkrar af vinkonunum eru komnar með maka með “alvöru vinnu” (eða sjálfar í alvöru vinnu) og þá hugsar maður “eftir hverju eru þær að biða?”. Það vantar ekki að það er mikið talað um barnseignir, en það virðist aðallega vera í tóninum “er ekki agalega erfitt að eiga börn?” Bara í gær snérist umræðan um hvernig sambandið á milli foreldranna breytist og hvernig í ósköpunum maður eigi að aga þau?!
Þannig að ég fór að velta fyrir mér af hverju þetta væri svona erfitt. Ég meina, ok, það er svakaleg skuldbinding að eignast barn, svo maður tali nú ekki um börn, en hvar í þjóðfélaginu var það sett inn í velmenntaðar konur með svakalega tekjumöguleika að þetta væri bara hreinlega næstum óviðráðanlegt verkefni? Er það bara að þær voru aldrei látnar passa frænkur og frændur? Eða eru þetta leyfar af áróðrinum “ekki eignast börn (ung) því þá þarftu að hætta í skóla og endar á kassa í Bónus”? Eða er þetta fullkomnunarárátta í einu og öllu?
Svo finnst mér tímasetningar-umræðan líka áhugaverð. Maður á ekki að eignast börn í framhaldsnámi því að, gúlp, þá útskrifast maður aldrei. Þegar maður loksins útskrifast, þá getur maður ekki bara farið að vinna og verða strax ófrísk. Nei, maður verður nú að vinna í svona 2 ár og svo getur maður farið að huga að barnseignum. Þetta finnst mér allt svolítið undarleg lógík, en svona virkar þetta hérna.
Það hlýtur reyndar að spila inn í að í Bandaríkjunum býr svo til enginn nálægt fjölskyldu sinni, svo að fólk hefur engan stuðning frá ömmu og öfum. Það er líklega mesta sorgin hérna finnst mér, það eru allir í svo lausu lofti einhvern veginn.
Á móti kemur að á Íslandi eru allar mínar vinkonur komnar með eitt barn, ef ekki tvö og það er bara látið ganga. Allt annar mórall í gangi einhvern veginn og svo miklu heilbrigðari að mínu mati.
Hvað um það, útópíu-doktorsnámið fyrir mér er núna þannig að það sé næstum gert ráð fyrir að konur eignist börn á meðan á því stendur og að það sé hjálpað til með að láta það ganga upp. Núverandi doktorsnám er hins vegar sett þannig upp að fólk eigi helst að setja allt sitt “líf” á frest til að fá pappírssnefil með nafninu sínu á og orðunum Ph.D. Mér finnst það vera heldur undarlegt kerfi.