Sunnudagur 11. mars 2007
Að leggja í hann til Houston
Þá er víst runninn upp ferðadagur og við á leiðinni bráðum á flugvöllinn. Ég er svo sem ekkert súper-spennt fyrir að fara, verð ein á ferð en veit af einum sem ég þekki sem er líka að fara á ráðstefnuna. Finnur verður svo extra-ofur-pabbi fram á miðvikudag, en þá kem ég til baka. Ég sé samt ekkert endilega fram á að koma heim fersk og endurnærð því þessar ráðstefnur gætu alveg eins heitið heila-steikingar-samkundur.
Ég kíkti í gamni á úrvalið af veitingastöðum í kringum vegamótelið mitt, og fann þar auðugan garð af alls kyns skyndibitastöðum, hrollur… Mataræði á ráðstefnum hefur alltaf verið hausverkur fyrir mig, enda oftast langt í almennilegan mat, bara boðið upp á kaffi (jökk) og meðlæti ef eitthvað er.
Annars er Katla í heimsókn núna á meðan amma hennar er í kirkjuferð og hún og Anna Sólrún eru úti í garði í blíðunni á meðan ég klára að pakka í bakpokann minn. Það er sko stefnt á mínímalískan farangur! 🙂