Mánudagur 12. mars 2007
Ráðstefna 1, Hrefna 0
Ég þakka góðar ráðstefnuóskir, en verð að viðurkenna að þetta hefur verið heldur “bumpy start”. Ég var nú greinilega í frekar annarlegu ástandi þarna í gærkvöldi í búðinni, því ég ákvað að kaupa ekki vatnsflöskur (átti í huganum hálfan brúsa einhvers staðar) og ákvað líka að sleppa því að kaupa höfuðverkjalyf þrátt fyrir yfirvofandi hausverk.
Mér tókst svo sem að sofna, en vaknaði um 3 eitthvað hálfslöpp og svo aftur klukkan 5 og var þá komin með alvöru hausverk og var að deyja úr þorsta. Kannski var þetta bara stress síðustu vikna að brjótast út en um 6 leytið ég var nógu desperat til að fara fram í anddyri (þar sem ég vakti indverjann á vakt) til að spyrja um verkjalyf. Því miður átti hann ekkert. Ég fattaði svo að vatnsbrúsinn minn var úti í bíl og lét mig því hafa það að drekka vatn úr krananum, sem var skárri en ekkert.
En hausverkurinn lét ekki á sjá og þar í ofanálag fór nú blessuð hreingerningarfýlan (sem reyndist við nánari þef vera meira greip-lyktuð en sítrónu-“ilmandi”) alvarlega að angra mig. Ég fékk mér appelsínu til að reyna að fá líkamann til að sætta sig við sítruslyktina, en það gekk ekki betur en svo að allt kerfið fór í baklás og almenn hreinsun fór af stað.
Eftir það leið mér betur, fattaði loksins að bleyta þvottapoka með köldu vatni og sofnaði loksins svefni hinna réttlátu – þrátt fyrir þrumuveðrið sem byrsti sig utan dyra.
Þessi næturævintýri ollu því að ég bara komst ekki fram úr rúminu á fyrirfram ákveðnum tíma og ég mætti um tveimur klst of seint á ráðstefnuna. Náði í skottið á fyrstu fyrirlestrarhrinunni, heyrði aðallega í fólki sem var að stara á svarthvítar myndir af yfirborði Mars og setja fram kenningar hvernig hinar og þessar landmyndanir væru til komnar. Þar lærði ég meðal annars um “pingóa” og eitthvað um hvernig jarðvegur hagar sér í sífrosti. Það eru allir voða spenntir að sjá hvað er mikið af vísbendingum um “ís” á yfirborði Mars.
Nú er hins vegar komið hádegishlé, og því næst á dagskrá að finna sér eitthvað ætilegt að borða. Næsta hrina stendur frá hálfþrjú til hálffimm og svo er kominn tíi á kvöldmat. Ég ætla að sjá til hvað ég geri næst, hlakka ekki neitt sérstaklega til að hanga á hótelinu í allt kvöld, en er búin að kaupa mér höfuðverkjalyf og slatta af vatni, bara svona til öryggis. 🙂