Þriðjudagur 13. mars 2007
Spennufall
Nóttin leið tíðindalaus og ég mætti sæmilega snemma á ráðstefnuna. Þar hlustaði ég á nokkra fyrirlestra um hvaða nýju upplýsingar hafa komið í ljós og munu koma í ljós með hjálp tækjanna um borð um gervihnöttinn MRO (Mars Reconnaissance Orbiter). Greinilega mikið í gangi og allir afskaplega kátir með sitt. Áhugavert samt að allir fyrirlesaranir voru yfirmenn stórra hópa. Ég hef séð minna af aumum doktorsnemum halda fyrirlestra, maður þarf greinilega að rækta garðinn áður en maður fær að halda 10 mín tölu.
Ég lét mig hins vegar hverfa rétt áður en síðasti parturinn af fyrirlestrunum hófst, því þá átti að fara að tala um jarðlög rétt einu sinni! Í staðinn gróf ég upp ágætan mexíkanskan veitingastað sem reyndist ferlega skemmtilega innréttaður, og maturinn var góður líka! Ég er farin að fíla þetta veitingastaðabrölt mitt! 🙂
En núna er maturinn í meltun og ég komin í spennufall og heldur syfjuð. Mætti aftur á hótelið, en þá var verið að þrífa herbergið, sem þýddi að ég sit í anddyrinu og bíð eftir að fá lak á rúmið. Ætla að leggja mig til að hafa orku í kvöldið, en stoppa stutt á “geimstöðinni” fyrst og fara í kannski einn túr eða svo áður en plaggata-dæmið hefst.