Þriðjudagur 13. mars 2007
Næstum búin
Eftir klukkustundar síðdegislúr reif ég mig á fætur og keyrði til Johnson Space Center. Þar plantaði ég mér í röð sem ég hélt að væri til að skoða risa-sundlaugina sem geimfararnir æfa sig í, en í staðinn lenti ég í röð til að skoða gömlu stjórnstöðina, sem var sett á eftirlaun árið 1996.
Það var áhugavert að sitja í VIP sætunum sem forsetar og stjörnur fengu að sitja í á dögum Apollo og Gemini ferðanna. Við sáum yfir klassísku stjórnborðin, hvert með sitt hlutverk. Þannig var borð fyrir gæjann sem átti að fylgjast með sjónvarpsstöðvunum, sem þá voru fjórar talsins, og taka eftir öllum geimferðafréttum.
Svo var að sjálfsögðu borð fyrir “flugstjórann” (flight director) og varnarmálaráðuneytið, og á því borði var stór rauður sími. Reyndar benti leiðsögumaðurinn á að öll borðin voru með símaskífu. Hann fékk þá sem höfðu notað skífusíma til að rétta upp hönd (það reyndust vera nokkrir) og svo bara þá sem voru yngri en tvítugt að rétta upp hönd. Það voru tveir…
Síðan keyrðum við að stóru eldflaugunum, og í þetta sinn var búið að opna húsið sem Saturn V eldflaugin er geymd í, en þær voru notaðar til að skjóta mönnum áleiðis til tunglsins. Þegar ég var þarna í fyrra þá var húsið lokað, og flaugin hulin plasti. En nú er sem sagt búið að hreinsa hana og laga að mestu og hún er vægast sagt mjög “impressive”.
Eftir skoðunartúrinn lá leiðin á enn einn veitingastaðinn, í þetta sinn Francies Italian Cusine. Þegar ég mætti voru flest ljósin slökkt, og það kom í ljós að helmingurinn af staðnum var rafmagnslaus! Sem betur fer var ennþá rafmagn á eldhúsinu og öðrum matsalnum (svo og kvennaklósettinu) svo ég settist niður og fékk mér lasagne sem var bara mjög fínt. Í eftirrétt fékk ég svo gómsætan ítalskan búðing með jarðarberjum… jömmí! 🙂
Á meðan ég beið eftir matnum spjallaði ég við einn þjóninn sem sagði mér að þetta hús væri eitt það elsta í bænum og ýmislegt sem á bjátaði. Það var meiri að segja svo að einn morguninn hefði einn ítalski frændinn (sem sér um að baka brauðin þeirra) mætt klukkan 6 og fundið alelda rafmagnsvíra! Eftir að hann hafði hringt á slökkviliðið hringdi hann svo í eigandann sem hrópaði upp yfir sig að hann hefði átt að láta staðinn brenna!! 🙂
Eftir matinn fór ég svo á plaggatasessjónið og spjallaði smá við fólk. Hitti tvo frá Stanford og tvö önnur sem annar þeirra þekkti. Svo kom yfirmaður Odyssey (sem er gervihnötturinn sem móttók mín gögn) og spjallaði aðeins, en hann er ekkert í ferlegu uppáhaldi hjá mér, og ég líklega ekki hjá honum. Oh well.
Þegar ég var búin að standa mína klst plikt við plaggatið fór ég að skoða mig um en sá fátt ferlega áhugavert. Settist því niður og er núna að blogga, því það eina annað sem ég hef að gera er að lesa vísindagreinar, og eh, ég nenni því ekki! (Síðar: fór að taka til á desktoppnum því það var ekkert netsamband og rakst þá á Lemmings-leikinn. Næsti klukkutími þaut fram hjá! 🙂
Í fyrramálið ætla ég að leggja af stað á flugvöllinn um 8 leytið og verð komin heim til Kaliforníu um 2 eftir hádegi á staðartíma. Mikið verður það nú gott! 🙂