Föstudagur 16. mars 2007
Fyrir framan tölvuna
Þessi dagur er búinn að líða fyrir framan tölvuna. Og ég sem ætlaði að skrúbba heimilið frá toppi til táar, en það fór fyrir lítið! Líka miklu skemmtilegra að bíða þangað til um helgina þegar Finnur getur hjálpað… 🙂
Annars hringdi Óli frá New York í dag því hann vantaði aðstoð við að finna hótelherbergi. Þar sem eiginlega öll flugfélögin felldu niður eiginlega öll flug frá New York í dag, þá var borgin full af hótellausu fólki. Þau höfðu loksins fundið einhvern stað þar sem hægt var að leita að hótelherbergjum, en ekkert fannst á viðráðanlegu verði nema YMCA hótel, en mér skilst að það hafi verið með sameiginlegum klósettum.
Ég vatt mér því á nýju uppáhalds-ferðasíðuna mína, Kayak, og byrjaði leitina. Það stóð heima að það var ekkert hótel að fá á Manhattan undir $300 fyrir nóttina, en rétt handan við ána, New Jersey megin, fann ég eitt á $150 og bókaði það. Þegar ég heyrði frá þeim síðast voru þau komin á hótelið (eftir annars langan og leiðinlegan dag) og á leiðinni að fá sér kvöldmat. Það var nú gott að heyra það.
Þar sem að ég sat hvort eð er fyrir framan tölvuna á meðan ég beið eftir að Óli hefði samband o.s.frv. þá ákvað ég að skella mér bara í að gera bandarísku skattskýrlurnar! Hafði reyndar krafsað eitthvað á pappír, en núna fyllti ég samviskusamlega út snyrtileg eyðublöð á netinu. Maður þarf að borga til að senda inn federal skýrsluna á netinu ef maður er með hærri tekjur en eitthvað ákveðið, svo við ætlum bara að nota póstþjónustuna. Kaliforníu skýrsluna er hins vegar hægt að afgreiða alfarið á netinu, svo hún er komin í “hús” ef svo má að orði komast. 🙂
Í öðrum Íslendingafréttum þá er von á Írisi Baldurs hingað í fyrramálið í mýflugumynd. Hún var víst í Monterey þessa vikuna, og leggur af stað heim á morgun um hádegið. Það vill svo til að sonur yfirmanns hennar er víst nýbúinn að fá inngöngu í Stanford, svo það þarf að stoppa aðeins við og skoða kampusinn. Við hlökkum til að sjá hana og það er alltaf gaman að túr-gæda svoldið. 🙂