Fimmtudagur 22. mars 2007
Stórar fréttir
Okkur gleður að tilkynna að það er von á fjölgun í fjölskyldunni núna í haust! 🙂
Í gær fórum við í sónar til að láta framkvæma hnakkaþykktarmælingu og viti menn… við eigum von á tvíburum!! 🙂 🙂 Það er greinlega eitthvað í vatninu því að hún Soffía 6-barna-móðir á von á tvíburum núna í sumar. Spurning með að athuga með restina af saumó?! 🙂
Hvað um það, upprunalega var ég sett á fimmta október, en núna er líklegt að hlutirnir gerist talsvert fyrr. Þar sem þetta eru allt voða nýjar fréttir, og af stærri gerðinni líka, þá er lítið vitað um framtíðar-plön á þessum bæ. Sem stendur ætlum við að reyna að taka þessu með svakalegu jafnaðargeði og stóla á hið íslenska mottó “Þetta reddast… einhvern veginn!”. 🙂
Það er líka nokkuð ljóst að við eigum eftir að liggja í símanum til Jóa og Kötu þegar fram líða stundir, enda best að fá ráð hjá sjóuðum tvíburaforeldrum!
Heilsan hjá mér hefur annars verið fín þannig séð. Reyndar verið plöguð af þreytuköstum og í þokkabót geng ég um ropandi eins og rússneskur skógarbjörn! Sem betur fer hefur mér ekki mikið óglatt, frekar svona bumbult. Nú er ég held ég komin 12 vikur á leið, og vona að nú fari að rofa til í þreytu-þokunni í hausnum svo ég geti amk gert heiðarlega tilraun til skólavinnu þar til næsta líf skellur á.
Sem betur fer eru Holla og Óli í heimsókn hjá okkur núna með hana Ágústu Maríu, og þau eru alveg búin að bjarga okkur! Hafa staðið í eldamennsku á meðan ég ligg á sófanum (og eða uppi í rúmi) og Finnur á fullu í undirbúningi fyrir alvöru atvinnuviðtal sem hann fer í á morgun. Það er svona til vara ef allt fer til fjandans hjá hans núverandi fyrirtæki, en það er ekkert að frétta úr þeirri áttinni ennþá.
Við erum annars að plana smá bílaferðalag með þeim um helgina og fram á næstu viku, enda verður nú að nota minivaninn fyrst við fengum þau til að leigja hann! 🙂