Fimmtudagur 1. febrúar 2007
Gönguferð upp á hæð
Í dag fór ég í gönguferð upp á hæð til að kíkja á stóra diskinn í fylgd með leiðbeinanda mínum og “blaðakonu” sem vildi fá að vita hvað diskurinn er notaður í þessa dagana. Gæsalappirnar eru út af því að hún vinnur við fréttabréf SLAC rannsóknarstofnunarinnar sem er á kampus og það telst nú ekki alveg sem frétta”blað”. Kannski að hún sé “bréfakona”? 🙂 En göngutúrinn var ánægjulegur og gaman að mæta aftur þangað upp eftir eftir u.þ.b. eins árs fjarveru. Það hafði gott sem ekkert breyst og á einni töflunni voru meiri að segja ennþá leyfar frá okkur frá desember 2005!
Þegar heim kom tók við venjubundin kvölddagskrá, í kvöld eldaði Finnur kjúkling í hvítri alfredó-sósu á meðan ég las fyrir Önnu Sólrúnu. Hún maldaði reyndar í móinn yfir áætluðum lestri, vildi miklu frekar horfa á Mikka ref og Lilla klifurmús í sjónvarpinu, en sætti sig samt ágætlega við örlög sín.
Um kvöldið þar sem hún lá uppi að spjalla við/lesa fyrir sjálfa sig þá kláraði ég “To Hell with It All” sem Sarah lánaði mér og byrjaði svo á “What to Eat” sem kom í Amazon kassa núna um daginn ásamt “The Omnivore’s Dilemma” og “Food to Live By” kokkabókinni.
Mér sýnist ég vera á góðri leið með að eignast nýtt áhugamál, en kannski er það ekki af því góða. Ætti ég ekki frekar að eyða kvöldunum fyrir framan tölvuna? Að leysa doktorsgráðu-gátuna? Þetta er eitthvað sem ég glími við daglega: Ætti ég að vinna dag og nótt að þessu, og hætta á útbráðnun, eða taka hverjum vinnudegi eins og hann er, sætta mig við léleg afköst þegar heim er komið og láta þar við sitja?