Mánudagur 26. febrúar 2007
Nýtt hjól
Helgin komin og farin. Saumó hjá Maddý síðasta föstudag. Skemmtileg tilbreyting að hitta stelpurnar og spjalla um lífið og tilveruna. Á laugardagsmorgun vaknaði ég með þá flugu í hausnum að kaupa nýtt og stærra hjól fyrir Önnu Sólrúnu. Minnug síðasta hjólakaupstúr, þar sem flest hjólin reyndust með stálgrind og nýþung, þá fór ég beint í dýru hjólabúðina með Önnu Sólrúnu því ég vissi að þar væru seld barna-álgrindarhjól, og við keyptum síðasta 16 tommu hjólið í búðinni!
Það skal tekið fram að 16 tommu stelpu-hotrock hjólin frá Specialized eru bara í tveimur litasamsetningum núna: svart og fjólublátt og svo svart og hvítt. Anna Sólrún var himinlifandi með fjólubláa litinn, enda alveg eins og buxurnar sem hún var í þann daginn. 🙂
Hjólið atarna var tekið strax í notkun eftir síðdegislúr því að Finnur hafði stungið af í Wii-spilatörn á meðan við lúrðum – svo að við mæðgur tókum okkur til og hjóluðum saman niður í skóla sem tók 20-30 mín! Þar stóðu og sátu spilavitleysingarnir fyrir framan stórt tjald og svo stórt flat-sjónvarp og spiluðu kappakstursleik og íþróttaleiki.
Við vorum samt ekki lengi í spilavitleysunni því að ég varð bílveik af kappaksturleiknum á stóra skjánum (ræð betur við hann á litlum skjá) og Finnur var kominn með hausverk af öllum látunum. Við fórum því heim með lágreist skott og pöntuðum pizzu í kvöldmat.
Sunnudagurinn rann upp með rigningu. Sigga kom í stutta heimsókn með hana Kötlu um morguninn, en tengdó hennar var víst í kirkju okkar megin við flóann. Eftir að þær fóru fórum við út með Önnu Sólrúnu að hjóla meira. Hápunktur dagsins fyrir mig var pönnukökubakstur eftir síðdegislúrinn og við þeyttum meiri að segja rjóma og skárum niður ber. Svoleiðis gerist ekki um hverja helgi!
Eftir duglegheitin ýtti ég feðginunum út í annan hjólatúr á meðan ég kom mér vel fyrir fyrir framan sjónvarpið og fór að horfa á óskarinn. Ágætt að gera það á guðlegum tíma, aldrei þessu vant. Finnur töfraði svo fram lax í kvöldmat og þar með var helgin flogin og ný vinnuvika runnin upp. Oh well…