Fimmtudagur 11. janúar 2007
“Síðasti maður í snjósturtuna er ætiþistill!”
Maður hélt að maður væri sloppinn við kuldakastið eftir að hafa yfirgefið Ísland, en svo er víst ekki. Ó nei. Hér er spáð kuldakasti út vikuna og fram eftir helgi líkt og á Íslandi. Það skal tekið fram að þetta er ekki þetta hefðbundna 10-stig-yfir-frostmarki kuldakast í Kaliforníu heldur er spáð allt að mínus 6 gráðum og snjólag ætti mögulega að ná niður fyrir 370 metra yfir sjávarmáli. Kallinn í útvarpinu spáði meira að segja snjósturtum (e. snow showers), hvað sem það er nú! Kannski það sé slydda. 🙂
Maður kímir nú bara.
Blöðin sum birta forsíðufréttir hér af dúðuðu fólki; “Kuldinn er hættulegur” lét einn í opinberri stöðu hafa eftir sér í einni greininni sem ég las. Boð hafa verið látin ganga á sjúkrahúsum og elliheimilum um að fylgjast með fólkinu í umönnun og fólki ráðlagt að klæðast lagskiptum fatnaði ef farið er út en annars að fylgjast vel með útvarpinu til að fá fréttir af aðstæðum. Varað var sérstaklega við því að taka nú ekki inn kolagrillið úr garðinum til að kveikja á og halda á sér hita innivið. Ekkert minnst á gasgrill.
Bændur örvænta víst mikið þessar mundir því sítrónu-, appelsínu-, greipaldin-, ætiþistla- og avocado-uppskeran er víst í hættu enda þarf að fara aftur til 1963 til að finna annað eins kuldakast.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á vegum úti ef hálkublettir birtast (og hvað þá snjór) – ætli menn kunni að keyra hér í slíkum aðstæðum?