Fimmtudagur 14. desember 2006
Óvenjuleg klipping!
Ég fór í klippingu í dag á nýja stofu. Ekki svo sem í frásögur færandi, nema hvað að þetta var heldur óvenjuleg ferð… Við höfum aldrei farið á þessa stofu áður, þetta var eitthvað sem við fundum á netinu.
Í fyrsta lagi var biðstofan með svörtum risastórum horn-leðursófa og plasma sjónvarp á veggnum með einhverja rásina í beinni. Vel gert við þá sem bíða, greinilega, en ég var sá eini sem beið og bara einn á undan mér í klippingu – hinar klippikonurnar að borða mat í hliðarherberginu.
Eftir smá bið var komið að mér að setjast í stólinn um það leyti þegar klippikonurnar kláruðu matinn og tóku að streyma inn; allar klippikonurnar ungar, asískar og eftir því smávaxnar með sítt svart hár. Og ekki hlaupið að því að skilja enskuna þeirra. Ég gaf klippikonunni nákvæm fyrirmæli um hvernig klippingu ég vildi – sem reyndar eru nákvæm fyrirmæli um það hvernig klippingu Hrefna vill að ég fái. 🙂
Hvað um það – Þegar klippingunni lýkur muldrar konan eitthvað sem ég skil ekki og bendir konan mér á að fylgja sér út á afvikin stað úti í horni á bak við þil, lætur mig leggjast á bakið á bekk og rann þá upp fyrir mér ljós að hún var að gera sig líklega til að þvo á mér hárið.
“Hmmm”, hugsa ég með mér, “ég er vanur því að vera þveginn fyrst og síðan klipptur – en þetta er kannski ágætis nýjung, prófum það”.
Stuttu síðar: “Hmmm, þvottur er sennilega rangnefni yfir þetta – þetta er eiginlega meira svona þvottanudd fyrir hársvörðinn”
Stuttu síðar: “Hmmm, þvottanudd fyrir hársvörðinn er sennilega rangnefni líka – því nú er hún farin að nudda á mér ennið… (hvað í ósköpunum er hér að gerast)… og yikes! nú er hún farin að nudda á mér kinnarnar… (detti mér allar dauðar lýs…) þetta er nú orðið ágætt… hvað ætli ég þurfi svo að borga fyrir herlegheitin?!
Stuttu síðar tók svo við hárnæring ásamt tilheyrandi frekara nuddi, og svo var komið að þurrkun. Nema hvað, þegar þurrkuninni var lokið tók við meira nudd, en fór að beinast meira að hálsinum (!) og síðan að öxlunum (!!).
Þegar hér var komið sögu var þetta orðið frekar “krípí” og allt í einu runnu á mig tvær grímur þegar það rifjaðist skyndilega upp fyrir mér sögurnar sem Hrefna sagði mér af útskriftarferðinni sinni til Tælands þar sem litlar asískar konur á götuhornum gerðu hosur sínar grænar fyrir íslensku strákunum í ferðinni. Það var þá sem ég ákvað:
“Ef hún býður mér upp á erótískt nudd, þá hleyp ég héðan út með handklæðið á hausnum!!” 🙂
Það kom þó sem betur fer ekki til þess, því að eftir þetta var komið að gelinu og svo að því að borga. “$15 dollara takk!” (ca. þúsund kall fyrir öll þessi herlegheit). Reyndar þarf að borga klippikonum hér þjórfé, en samt – þetta er undir $20 sem er ekki slæmt! 🙂