Miðvikudagur 20. des 2006
Anna var ekki lengi í heilsuparadís
Anna Sólrún vaknaði með hita núna í morgunsárið og þar með komin með hálsbólgu, hósta og hita. Það lítur út fyrir að hún sé ekki á leiðinni í bæinn neitt á næstunni, en það er spurning með hvað við Finnur gerum. Hann er annars víst á leiðinni upp á Laugarvatn á eftir með afa sinn, sem fékk skyndilega þörf fyrir að athuga hvort ekki sé allt í lagi þarna uppfrá. Annars er hún ekki veikari en svo að núna liggur hún sönglandi uppi í rúmi (Row, row, row your boat…) svo að vonandi hristir hún þetta af sér fljótlega.
Tíminn er annars búinn að vera ljúfur, sunnudagurinn fór í að heimsækja Byggðarendann, Álagrandann og Laugateiginn. Á mánudeginum heimsóttum við Álagrandann, ex-Fremont og svo Breiðvanginn. Í gær sváfum við svo alveg til eitt eftir hádegi og það var von á systrunum klukkan 5 svo að við héldum okkur bara í Mosó. Við meikuðum það nú reynar út í nýju Krónubúðina (fundum lífrænu deildina, jibbííí!! mmmm dökkt súkkulaði!!) og svo líka út í bókasafn þar sem við náðum okkur í hrúgu af barnabókum. Þar af hafa Snúður og Snælda vakið mesta lukku… 🙂
Anna Sólrún hefur annars fengið að kynnast einu veðurfyrirbrigði á dag hingað til. Þegar við lentum kynntist hún snjó (vissi ekki hvort hann var heitur eða kaldur þegar ég spurði hana í flugvélinni á Keflavíkurflugvelli), daginn eftir kynntist hún klaka þegar hún flaug á hausinn á einu bílastæðinu (við sýndum henni eftir á hvernig klakinn er sleipur) og í gær kynntist hún roki þegar við gengum út úr bókasafninu og ég þurfti að segja henni að horfa niður. Síðan komum við fyrir horn og þá blés vindurinn henni áfram og hún var ekki alveg viss hvað hún ætti að halda!
En só far, só gúd. Hún situr hérna núna við hliðina á mér og bendið á stór “A” og segir “A fyrir Önnu” í gríð og erg. Er greinilega ekkert of veik… Best að fara samt aftur upp í rúm að kúra!