Aðfaranótt laugardags 30. des 2006
Húsdýragarðurinn
Við fórum fjölskyldan í dag í húsdýragarðinn með Öddu og Hildi Sif; sáum þar fálka, hreindýr, endur og fiska ýmiss konar. Sáum þegar selunum var gefið, nýfædda grísi (nýjasti var glænýr) og beljur mjólkaðar. Veðrið var ekki upp á sitt besta en við vorum bara þeim mun betur klædd. Við skemmtum okkur öll vel þó Anna væri smeyk við lætin í flugeldunum og nautinu.
Að þessu loknu tókst okkur einhvern veginn að bjóða okkur sjálf til Hólmfríðar og Óla, gerðumst svo kræf að panta hjá þeim ákveðinn kvöldmat (hnetukjúlla), koma ekki með nema hnetusmjör í réttinn og smá salat (eina sem vantaði) og taka svo yfir eldhúsið hjá þeim og fara að baka köku fyrir afmæli Önnu Sólrúnar! Veit ekki um marga vini sem eru svo góðir að láta slíkt yfir sig ganga! 🙂
Gullkorn dagsins kemur svo frá Önnu, sem ég spurði hvaða dýr hún hefði séð í Húsdýragarðinum. Svarið stóð ekki á sér: Dreka, kengúru, ljón og Hildi Sif. 🙂