Miðvikudagur 1. nóvember 2006
Heimadagur
Ég ákvað að eyða deginum heima í dag. Ætlaði að taka mér frí til að hlaða batteríin en ákvað í staðinn að fara í smá tiltektaræði. Til að friða samviskuna, þá setti ég af stað keyrslu á tölvunni en svo fór ég í gegnum bæði herbergin uppi og henti fullt af óþarfa. Helst fengu að fara pappírsstaflar af tryggingar-kynningar-bæklingum (gat nú skeð) sem Finnur fékk fyrir löngu, svo og tölvuleikjakassar sem hafa setið uppi á hillu síðan við fluttum inn.
Hillan í dótaherberginu var full af kiljum frá okkur, svo ég setti þær allar í eina tösku og núna er ég að reyna að ákveða hvað er best að gera við þær. Mér er meinilla við að henda bókum, kannski að við setjum það bara í kassa fyrir GoodWill eða eitthvað. Við þurfum hvort eð er að skila inn tonni af fötum þangað, því ég ákvað að losa mig við svo til allar buxurnar mínar, enda hætt að nota þær velflestar. Svo fór ég í gegnum fataskapinn og tók út allar peysurnar sem ég hef bara notað einu sinni og þær fóru í GoodWill hrúguna líka.
Blóðugast fannst mér samt að henda 4-5 útgengnum pörum af strigaskóm af mér svo og öllum of litlu skónum hennar Önnu Sólrúnar. Einhvers staðar las ég nefnilega að það sé ekki gott að láta (mikið) notaða skó ganga á milli barna, þannig að þeir fengu að hverfa út í tunnu, en fyrst tók ég samt af þeim mynd.
Skemmtilegast fannst mér að drösla gömlu tölvunni okkar (eiginlega Steinunnar-tölvu 🙂 niður og skilja hana eftir ásamt risa-stóra skjánum á stofuborðinu fyrir Finn þegar hann kæmi heim. Þessi blessaða tölva er búin að flækjast fyrir okkur í rúm tvö ár núna (eftir að Steinunn fór). Finnur flikkaði reyndar upp á hana fyrir löngu og reyndi að selja hana en ég var of gráðug þannig að það gekk ekki. Við gleymdum svo alltaf að reyna að selja hana aftur, svo hún sat bara hérna heima og safnaði ryki. Núna er hún orðin 6 ára og líklega útséð með að fá fyrir hana aur svo ætli við förum ekki með hana í rafmagnstækja-endurvinnsluna. Hún er amk reglulega fyrir okkur núna svo eitthvað hlýtur að gerast… amk innan mánaðar! 🙂
Allt þetta henderí virðist hafa dregið úr drukknunar-tilfinningunni sem var komin yfir mig hérna heima, því við erum hreinlega komin með svo mikið drasl að ég næ ekki lengur að muna hvað við eigum og hvar það er (sem er algjört möst!). Neðri hæðin er samt ennþá eftir með öllum bókahillunum, og öllum troðfullu skúmaskotunum. Kannski að ég ráðist á það allt saman á morgun…