Mánudagur 6. nóvember 2006
Kostningar á morgun
Við Finnur bíðum bæði með öndina í hálsinum eftir kostningunum á morgun og vonum að demókratarnir nái að bíta vel og vandlega í valdahönd repúblikananna. Á meðan erum við bæði ill-vinnufær, sem er ekki alveg nógu gott. Ég er reyndar líka með míni-kvef og hef almennt verið ferlega slöpp/þreytt undanfarið (nei, ég er ekki ólétt!) en veit ekki af hverju það stafar.
Helgin var busy busy. Við fórum í 3ja ára afmæli til Noruh bekkjarsystur Önnu á laugardagsmorgun. Eftir afmælið lögðum við okkur öll og svo var keypt í matinn, kvöldmatur eldaður og horft á Daily Show. Á sunnudeginum fórum við í Great Mall kringluna og keyptum föt fyrir Önnu Sólrúnu og Finn (ég fann mér ekkert frekar en fyrri daginn). Það var reyndar ekki öll uppskeran því Anna Sólrún hin æsta hljóp beint á “þjófavarnarhlið” í einni búðinni (við útganginn) og uppskar risastórt mar á ennið. Við vorum ekkert smá heppin að húðin skyldi ekki bresta (það munaði engu!) því það hefði endað með ennþá meiri ósköpum!
Eftir búðarferðina brunuðum við heim til að pakka gjöf og ná í kjól á Önnu Sólrúnu og síðan fórum við í 3ja ára afmæli til Elísabetar þeirra Gumma og Eddu. Afmælið var með prinsessu-þema; þau vorum búin að leigja hoppukastala og svo mætti alvöru prinsessa (það er leikkona í bleikum prinessukjól með ljósa prinsessu-hárkollu) sem sagði sögur og málaði stelpurnar í framan. Stelpurnar skreyttu svo kórónur og bjuggu til hálsfestar og alveg í lokin þá var borðuð kaka.
Við keyrðum heim í myrkri því núna er orðið dimmt fyrir klukkan 6 á kvöldin, hituðum upp matarleyfar og eyddum svo kvöldinu við spilamennsku og Mythbusters-gláp með Augusto og Söruh. Að vanda fórum við allt of seint að sofa og rétt skriðum fram úr þegar klukkan hringdi núna í morgun…
Áður en ég gleymi: Við mældum Önnu Sólrúnu um helgina og hún var 99 cm og um 16 kg, sem þýðir að hún er á 90% línunni bæði í hæð og þyngd. Það lítur út fyrir að hún sé aðeins að taka smá sprett núna eftir rólegt haust, því margar af buxunum hennar eru allt í einu orðnar aðeins of litlar.
Það verður gaman að bera hana saman við litlu nýfæddu dóttur Badda (bróður Finns) og Aðalheiðar sem kom í heiminn í síðustu viku. Til hamingju með það!! 🙂