Sunnudagur 26. nóvember 2006
Löng helgi komin og farin
Þakkargjörðarhátíðin – og þar með lengsta fríið í USA á árinu – var þessa helgi, frá fimmtudegi og þar til í dag. Við nutum frísins en samt ekki alveg nógu vel því það voru margir hlutir á “To Do” listanum, sumir hverjir sem voru afgreiddir en aðrir ekki.
Af þeim sem voru afgreiddir skal helst minnst á brauðbakstur fyrir þakkargjörðarmáltíð hjá leiðbeinandanum mínum sem bauð grúppunni í dýrindis máltíð. Á föstudeginum fengum við Fayaz í mat (íslenskar fiskibollur) ásamt Söruh og Augusto og skemmtum okkur vel enda alltaf fjör þegar þeir tveir mætast. Það sem helst gerðist sem var ekki á To Do listanum var að við mæðgur bjuggum til piparkökudeig á föstudagsmorgninum sem síðan var bakað á laugardeginum. Ég kenni Dýrunum í Hálsaskógi um þá afvegaleiðingu!
Annað sem gerðist á laugardeginum var að Sarah sparkaði okkur út úr okkar eigin húsi ásamt Augusto og passaði Önnu Sólrúnu á meðan við “fullorðna fólkið” fórum að sjá Bond, James Bond. Það verður ekki annað sagt en að það hafi verið gaman að fara í bíó, en ég er greinilega komin úr æfingu, því eftir fyrsta klukkutímann var ég barasta orðin þreytt á látunum og skrapp á klósettið til að ná áttum. Bondarinn sjálfur var kúl, afar kúl, en myndir var of löng og ég taldi svona þrjá falska enda!
Pössunin gekk hins vegar vel, Sarah náði að svæfa Önnu Sólrúnu, en á móti kom að sú litla var óvenju lítil í allan dag og fór t.d. alveg í mínus þegar hún vaknaði eftir miðdegslúrinn og ég var ekki í rúminu eins og þegar hún sofnaði. Til annarra tíðinda taldist að það fór að rigna í dag, og rigningin hrakti meðal annars Finn og Önnu Sólrúnu snemma heim úr hjólatúr um íþróttasvæðið.
Til að komast nú aðeins út úr húsi fórum við svo í búðarferð í CostCo og REI og ég var afskaplega glöð að finna heitar undirbuxur á Önnu Sólrúnu fyrir Íslandsferðina. Við mátuðum líka úlpur en ákváðum að lokum að láta gömlu ofur-úlpuna duga þó hún sé örlítið stutt í ermarnar, en keyptum á móti vígalega vettlinga sem ná hátt upp á handlegginn. Við bættum við einni húfu og þar með er Anna Sólrún orðin Íslandsfær! 🙂 Kvöldið endaði hjá Chef Chu’s þar sem Anna hámaði í sig chow mein og skeljar (clams) í svartbaunasósu. Eyrún ætti að vita hvernig það virkar! 🙂
Í lokin þá verð ég nú bara að segja að svona stutt frí eru algjört svindl því þá finnur maður loksins hvað maður þarf innilega að komast í almennilegt frí. Sem betur fer eru bara 3 vikur og hellingur af jólainnkaupum í það! 🙂
p.s. Ónefndur aðili heimtaði að við káluðum ftp servernum okkar fyrir sftp server, nema hvað að það kláraðist aldrei að setja upp þau ósköp. Það er því lokað fyrir myndir í bili (og ég sem var búin að gera nýjar síður!) en það lagast vonandi fljótlega…