Mánudagur 27. nóvember 2006
Hversu flókið er það að senda einn pakka?
Ég fór til FedEx í dag að senda bók úr landi og ég get ekki sagt annað en að mér hafi blöskraði ferlið þvílíkt – ég skil ekki hvernig hægt er að gera einfalt ferli svona flókið. 🙂
Fyrst réttu þeir mér þrírit til að fylla út (fyrir innanlandssendingar). Svo föttuðu þeir að ég ætlaði að senda úr landi, tóku þríritið og réttu mér í staðinn FJÓR-rit til að fylla út. Að sjálfsögðu þarf virkilega að þrýsta pennanum fast ofan í til að síðasta afritið sé læsilegt (og til öryggis þarf líka einn starfsmann í að minna alla á að maður eigi að skrifa fast). Ég fyllti fjórritið út fast og samviskusamlega, listaði innihaldið, heimilisfang sendanda og viðtakanda og skáldaði upp eitthvað virði þar sem ég var ekki viss um hvað þetta kostaði allt saman: “Myndabók (gjöf). Virði: $50”. Allt sem þarf, ekki satt?
Raaaangt. Hann tekur við þessu, nær sér í stóran doðrant og flettir og flettir: “…. hmmm… hvar er landið sem ég er að leita að? … (flettir) Ah, fann það… látum okkur sjá… (flettir áfram) … bækur … hmmm (flettir) … hmmm… myndir …”
“Hvort er þetta bók eða myndir?”
Á þessum tímapunkti fór ég að reyna að útskýra fyrir honum að þetta væri eiginlega bæði bók og myndir því þetta eru útprentaðar myndir en er í raun á bókaformi (innbundið). Big mistake. Hefði bara átt að segja myndir. Af hverju þarf maður alltaf að vera svona samviskusamur.
Hann: “Og hvar var bókin framleidd?”
Ég: “Ha? Ég hef ekki hugsað út í það. Þetta var keypt á netinu, og því örugglega framleitt hér í Bandaríkjunum – af hverju?”
Hann: “Það þarf að tilgreina það á skýrslunni. Við þurfum að opna pakkann og athuga.”
Ég: “Ha?! Opna pakkann? Tilgreina á skýrslunni?”
Eftir nokkrar mínútur með dúkahnífinn (allir pakkar frá Hrefnu eru svo vel innpakkaðir að þeir eru nánast vatnsheldir) var hann kominn í gegnum a) brúna umbúðapappírinn, b) GJAFAPAPPÍRINN sem bókin var í og líka c) plastvasann sem bókin kom í. Að sjálfsögðu var hvergi tekið fram hvar bókin var framleidd en hann virtist ekki hafa miklar áhyggjur af því: “Við gerum þá bara ráð fyrir að hún sé framleidd hér”. (heyrðu, takk fyrir að rífa upp pakkann fyrst það er svo í lagi eftir allt saman að slumpa bara á landið).
Nema hvað, svo rekur hann augu í kortið sem fylgir með bókinni. “Ah, fylgir kort með líka? Það þarf að tilgreina það á skýrslunni líka. Hvað kostaði kortið? Nú, veistu það ekki? Segjum að það kosti einn dollara”. Á þessum tímapunkti fór hann yfir pappírana frá mér og breytti alls staðar þar sem stóð $50 yfir í $51 (með því að plástra einum (1) fyrir framan núllið og breyta núllinu mínu í kommutölu: $51,00). Næsta verk var svo að plástra saman pakkanum, líma aftur saman gjafaumbúðirnar (og brúna umbúðapappírinn) og skella þessu svo öllu saman í sérstakan FedEx kassa sem hefði rúmað allavega tvo og hálfan pakka af sömu stærð. Það fór ekki framhjá honum, að sjálfsögðu, og því fann hann til brúnan umbúðapappír, og fór að krumpa hann saman og fylla upp í lausa plássið. Gaaaa!!! (þvílík sóun!)
Þegar hér var komið sögu var þetta farið að minna mig svolítið á Ástrík í Ástríksbókinnni, þar sem hann fór á einhverja rómverska stofnun og var látinn fylla allt út í þrí og fjórriti, sendur á milli hæða til að tala við einhverja fulltrúa á einhverjum deildum sem voru ekki til og endaði alltaf á byrjunarreit hjá sama gaurnum.
En hvar var ég… Já, svo (að sjálfsögðu) rétti hann mér nýtt eyðublað til að fylla út (í einriti í þetta skiptið) þar sem ég varð að gjöra svo vel að fylla út SÖMU UPPLÝSINGAR (gaaa!!) og á síðasta eyðublaði (nafn og heimilisfang bæði sendanda og viðtakanda, innihald og upphæð, osfrv). Nema hvað, þetta eyðublað ÞURFTI AÐ LJÓSRITA í nokkrum eintökum (ég er farinn að skilja af hverju þeir keyptu upp Kinkos ljósritunarkeðjuna og sameinuðu við póstinn). Svo þurfti að dreifa afritunum út um allt (eitt fylgir með sendingunni, annað með kvittuninni, þriðja fer í sérstakann FedEx kassa á gólfinu, fjórða í pappírstætarann, fimmta í… ok, kannski ekki í tætarann, en það vantaði bara). Áður en ég sá hvar öll þessi eintök enduðu var mig farið að gruna að þetta síðasta eyðublað væri bara til þess gert að hann geti byrjað að afgreiða næsta viðskiptavin (og byrja allt ferlið upp á nýtt (“Gerðu svo vel, hér er þrírit – fylltu þetta út”). Fjórritið mitt góða fylgdi svo svipuðu ferli – einu stungið í þennan poka, annað í þessa skúffu, þriðja heftað við kvittunina, fjórða í pappírstætarann… – þið vitið hvað ég á við. 🙂
Enívei… Eftir að hafa verið inni í versluninni í örugglega 15-20 mínútur var gjöfin tilbúin til sendingar – innan í plast umslagi, innan í samanplástruðum gjafapappír, innan í brúnum umbúðapappír, innan FedEx kassa úttroðnum af einhverju pappírs-krumpi, með öllum tilskyldum leyfum, kvittunum og tollskýrslum í þrí-, fjór- og fimm-ritum og komið að því að borga… Phew!
“Já, þetta verða $65 dollarar ef þú vilt að þetta berist á miðvikudaginn (2 dagar) eða $69 dollarar ef þú vilt að þetta berist í lok vikunnar”. Hrmph! Að sjálfsögðu kostar meira að senda bókina úr landi en að búa hana til og láta senda hana til okkar! Og það sem meira er, það er óljóst hvaða gjöld/tolla viðtakandinn þarf að greiða til að leysa bókina úr prísundinni. FedEx gaurinn sagði mér eftir á að ég gæti borgað þessi gjöld sjálfur – en til þess þyrfti ég að stofna hjá þeim reikning. “Þú getur gert það næst þegar þú kemur”. Ég sé þetta alveg fyrir mér… Þrírit, ljósritað í fjórum eintökum, faxað á skrifstofu höfuðstöðva FedEx, skannað inn í tölvu, importaði í Excel, prentað út, lesið upp í síma, skrifað niður á hinum endanum, slegið inn í tölvu… #fade out#.