Sunnudagur 1. október 2006
Og hvað er svo að frétta?
Enn önnur vika liðin, flaug framhjá á ógnarhraða. Jón (hennar Gunnhildar, frænku Hrefnu) kom frá Los Angeles í heimsókn síðasta miðvikudag í nokkra klukkutíma. Náðum í hann á flugvöllinn í San Jose, gáfum honum að borða og skutluðum svo í flugvél á leið til Íslands frá San Francisco.
Svo kom Eyrún systir (“Eyrún frænka” eins og Anna Sólrún kallar hana) í heimsókn á föstudaginn og gisti hjá okkur eina nótt (fólk virðist ekki vilja gista hjá okkur lengur). 🙂 Hún var annars með vinkonum sínum í saumaklúbbsferð til San Francisco og nágrennis og ákvað að skilja við þær og stoppa við hjá okkur undir blálokin (og fór svo í gær heim til Íslands). Samverunni eyddum við heima í spjalli leikandi við Önnu, á fínum veitingastöðum og í túr um Stanford kampusinn sem var á óskalistanum hjá Eyrúnu og við aldrei farið í þrátt fyrir að hafa verið hér í 6 ár… Jeminn – við erum búin að vera hér í 6 ár!
Af öðrum fréttum er það að Hólfríður og Óli eru búin að eignast gullfallega dóttur, hana Ágústu Maríu. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju og hlökkum til að hitta þau um jólin!
Og, já – Anna Sólrún fékk nýtt rúm í kvöld. Við skrúfuðum loksins saman rúmið sem við keyptum handa henni í Ikea fyrir löngu síðan og hún var ekkert smá spennt að fá að prófa. Hún hékk utan í okkur meðan við skrúfuðum sundur rimlarúmið (“who took my bed?!”) og saman nýja rúmið og Anna Sólrún þurrkaði okkur á bakið með blautum (“wets”) tuskum eftir því sem henni fannst bakið á okkur verða óhreint við samsetninguna (ekki spyrja, við furðuðum okkur jafn mikið á þessu uppátæki hennar).
Hún var nokkuð spennt að fá að sofa í nýja rúminu þó að (af gömlum vana) rétti hún upp tvo fingur þegar kom að því að fara að sofa og bað um að fá að leika sér í “two more minutes” (sem hún fékk) og að honum loknum rétti hún upp fjóra fingur og bað um “four more minutes” sem hún fékk ekki. (Stundum réttir hún upp þrjá fingur og biður um “four more minutes” sem gerir föðurnum erfiðara um vik að halda andliti og hefja svefnrútínuna en maður verður víst að vera fastur fyrir svo hún læri að telja rétt) 🙂
Hún nýtti sér nýfengið frelsið (kemst auðveldlega úr rúminu) með því að fara (ein) í þrjár auka-klósettferðir að kreista hvern einasta dropa út fyrir svefninn, skipta um náttföt (“I have to have my náttbuxur”, eins og hún tilkynndi mér þegar ég tékkaði á hvaða brölt væri á henni), setja á sig bleyju (“I can’t sleep in my bed without my bleyju”), ná í og raða öllum bókunum sínum til fóta (“don’t take my books!”) og setja koddana sína á gólfið – svona kannski til að taka fallið ef hún skyldi detta framúr í nótt (mamman bætti svo við einum kodda til viðbótar, svona til öryggis). En á endanum sofnaði hún án þess að kvarta eða svo mikið sem kalla okkur upp að gera eitthvað (eins og venjulega), sem verður að teljast sigur. 🙂
Sófar só gúdd. 🙂