Sunnudagur 10. september 2006
Fyrsta opinbera “plei-deitið”
Í dag fórum við í okkar fyrsta opinbera “plei-deit” (e. play-date) og það heim til Noruh, bekkjarsystur Önnu Sólrúnar. Þær tvær eru elstar í bekknum og leika sér mikið saman að drottinga-stíl. Allt gekk þetta með miklum sóma, og helst var það uppgötvun hvað við tökum leiksvæðið í bakgarðinum okkar sem sjálfsögðum hlut! Hjá þeim þurftum við að fara í hörku göngutúr upp snarbrattar brekkur til að komast á almennilegan leikvöll. Svo borðuðum við saman afskaplega fínan kvöldmat, þar sem Anna Sólrún hámaði á meðal annars í sig skelfisk (e. clams) okkur til mikillar undrunar!
Í gær fórum við annars í dótaland fyrir fullorðna, það er Ikea, og hjálpuðum Augusto og Söruh að velja sér húsgögn. Síðan hvíldum við okkur yfir bládaginn áður en við mættum margefld heim til þeirra og settum saman tvöfalda kommóðu, tvö náttborð, risastóra hillu með glerhurðum og festum upp borð fyrir “dolsamer” hljóðfærið hennar. Við vorum ekki búin fyrr en klukkan 11 og Anna Sólrún vakti allan tímann! Hún var hinn besti hjálparkokkur, handalangaði hamarinn og borinn á milli herbergja, en við þurftum aðeins að hafa auga með að hún tæki ekki skrúfudollurnar með sér líka!
Svo er kannski rétt að minnast á að ég setti inn myndir hérna vinstra megin í fyrsta skipti frá því í júli… Vona að það fái enginn hjartaáfall! 🙂