Miðvikudagur 20. september 2006
Tíminn flýýýýýgur
Dagarnir líða hjá með óraunverulegum hraða þessa dagana. Verst er að mér finnst ég engu koma í verk, sit lömuð og velti fyrir mér smáatriðum og skoða fréttir á netinu þess á milli. Þarf að klambra saman plaggati fyrir ráðstefnu í Los Angeles þann 12. október, það er orðið óhuggulega stutt í það.
Í dag var “kynningardagur” fyrir nýnemana, ég tók þátt og kynnti kvenfélagið og var svo að sósílæsera. Þetta gerði út af við alla vinnu eftir hádegi. Mest hvekkjandi parturinn var samt að tala við einn af deildarstjórunum sem sagðist halda að kvenfólki færi fækkandi í deildinni, sérstaklega þeim sem eru í doktorsnámi. Ef meta má hvað við sem erum hérna erum “kátar” með lífið (“Ó, ég á aldrei eftir að útskrifast” er algengur söngur á mínu heimili, og við erum allar “jaded”) þá er það kannski ekki skrítið að aðrar séu ekki æstar að feta í okkar fótspor. Hvað þá að horfa upp á kven-prófessorana sem eru alltaf á trilljón… hver vill þannig líf?!
Í barna-fréttum þá er Anna Sólrún hægt og rólega að verða sjálfstæðari og enskari. Hún vaknar á ensku og fer að sofa á ensku og þar á milli reynum við að tyggja í hana setningar á íslensku, sem hún hermir eftir en skiptir svo jafn-óðum yfir á ensku aftur. Mig dauðlangar að taka hana til Íslands og bjarga henni frá enskunni, en ætli það sé ekki best að stefna á íslensku-ídýfu um jólin bara…
Hún er líka farin að hlæja að sínum eigin bröndurum – oh, hún er svoooo fyndin! 🙂 Myndavélagrettan (það sem hún heldur að sé “bros”) er líka komin til að vera sýnist mér, svo og pírð augu þegar hún er ekki alveg sátt við okkur. Hún er sem betur fer að mestu hætt að afneita okkur sem ekki-vinum þó svo um daginn hafi hún sagt við mig “you are not my best friend”… Ég sagði henni þá að ég væri mamma hennar og hún dóttir mín og vinskapur hefði ekkert með það að gera! 🙂
Hún er límd saman við Noruh vinkonu sína á daginn í leikskólanum og hleypur þangað inn á morgnana til að athuga hvort að hún sé komin. Kennarinn lýsti því í dag sem svo að þær væru orðnar eins og ævagamlar kerlingar, kíttu stanslaust, þangað til að kennararnir hótuðu að stía þeim í sundur, en þá féllust þær í faðma og lýstu yfir bestu-vina-heitum.
Norah er mánuði eldri en Anna, en er samt talsvert minni en hún og ekki nærri jafn örugg í hreyfingum (Anna er fótviss sem geit og almennt lýst sem “athletic”) en Norah er hins vegar þeim mun duglegri að tala en Anna, sem er ennþá nokkuð óskýrmælt og endalaust að rugla setningaskipan, sem er kannski ekki von enda með tvö tungumál á herðunum!
Ein skemmtisaga:
Finnur var í þriðju eða fjórðu ferð upp í herbergi í kvöld að svæfa Önnu Sólrúnu. Finnur bar fingurinn upp að vörunum og sagði: “Nú verðurðu að hafa hljótt, ussss…” og Anna Sólrún svaraði í sömu mynt með því að setja fingurinn upp að vörunum og segja “ussssss…”. En um leið og Finnur snéri við henni baki til að fara út úr herberginu kom söngkviða frá Önnu Sólrúnu á fullum styrk: “ROW ROW ROW YOUR BOAT, GENTLY DOWN THE STREAM…!!” og Finnur bældi niður í sér hláturinn og gekk út.