Laugardagur 23. september 2006
Laugardagur til lukku
Þá er laugardagurinn liðinn. Eyrún systir hringdi í mig áðan og sagðist vera lent og vikuferð hennar til San Francisco með saumaklúbbnum því hafin. Hún endar hana hér hjá okkur með því að gista yfirnótt áður en hún heldur aftur til Íslands. Vonandi sjáum við hana eitthvað þess á milli, en líklegt að það verði ekki því dagskráin er þéttbókuð hjá þeim (Napa, Carmel, o.s.frv).
Hápunktar dagsins hjá okkur voru annars sundferð í Stanfordlauginni og svo matur á veitingastað um kvöldið. Við sögðum Önnu Sólrúnu eftir sundið að við ætluðum að fara “út að borða” og hún var spennt en vissi örugglega ekki alveg hvað við ættum við.
Veitingastaðurinn var annars mjög fínn, alvöru ítalskur útiveitingastaður (bæði gestir og starfsmenn töluðu ítölsku en ekki spænsku eins og oft á veitingastöðum hér). Staðurinn er með nýmódern grískum styttum (ein þeirra heldur á þvottavél fyrir ofan hausinn og hellir vatninu úr henni; frekar tacky) 🙂 og Anna stóð sig bara vel. Á einhverjum tímapunkti sagði ég við hana: “Er gaman að vera úti að borða?” og svarið lét ekki á sér standa: “Not yet!”. 🙂 Við þurftum nefnilega að bíða svolítið eftir matnum en Anna hafði tilkynnt okkur í bílnum á leiðinni að hún væri södd (og meinti þá svöng). Seinna kættist hún þegar maturinn kom og þegar Hrefna sagði við hana: “Gjörðu svo vel, hérna er sveppur” og Anna tók við honum og sagði í forundrun: “Úllala!? Sveppur!”. 🙂