Föstudagur 11. ágúst 2006
Meiri gestir!
Á miðvikudaginn komu Gunnhildur (föðursystir mín), Jón og krakkarnir þeirra, þau Orri og Helena, hingað í heimsókn til okkar í norður Kaliforníu. Þau búa nefnilega í Los Angeles, og þó svo að við höfum nokkrum sinnum skroppið í heimsókn til þeirra, hefur þau alltaf vantað einhverja afsökun til að yfirgefa sitt ágæta heimili og kíkja hingað uppeftir í þrengslin til okkar! 🙂
Sú afsökun kom loksins, því að Orri átti erindi til Svíþjóðar og þá var best að senda hann yfir pollinn með Icelandair frá San Fran og svo áfram til Svíþjóðar frá Keflavík. Þau keyrðu því upp eftir á tveimur dögum og áttu ágæta næturgistinu í Monterey áður en þau mættu hérna til okkar – og skutluðu svo Orra upp á flugvöll nokkrum klukkustundum síðar! Fimmtudeginum eyddu þau í San Fran, og kvöldinu með okkur (ég reyndi að baka brauð, en það mistókst örlítið) áður en þau lögðu af stað suðureftir í morgun.
Anna Sólrún og Helena náðu afskaplega vel saman, sérstaklega yfir Ikea trélestinni (ég er núna búin að kaupa þrjá auka kassa fyrir utan kassan sem hún fékk í jólagjöf frá Huldu og fjölsk.) og svo Lego-kubbunum. Anna Sólrún var því afskaplega döpur að sjá á eftir þeim og lýsti því yfir í kvöld að hún vildi fá fleiri gesti!!
Reyndar er þetta nú búið að vera frekar leiðinlegt fyrir greyið því við erum jú oft að fá gesti, en allir fara þeir svo langt langt í burtu og sjást bara ekki meir! Núna nýlegast hefur hún fengið að sjá á eftir Eyþóri, Baldri og Helenu, svo ekki sé minnst á Kanada-Sigga sem lék við hana eitt kvöldið. Maður fer að hafa áhyggjur af því að hún fái bara eitthvað á sálina yfir þessu öllu saman!
Einn leikskólakennarinn vildi samt meina að núna væri hún komin upp um eitt stig í viðbót í þroska, því hún vill ekki bara láta smala sér áfram eins og kind lengur, heldur segir NEI og tjáir sig þar með um það sem hún vill.
Í öðrum ævintýrum er það að frétta að Sarah og Augusto er að flytja um helgina í nýja íbúð í burtu frá kampus. Þar með þurfa þau að kaupa sér húsgöng, svo ég fór með þeim í Ikea til að vera þeim til halds og trausts, enda þau búin að gera sér far um að fara aldrei þangað inn. Í kvöld keyptu þau sér kommóðu og hillur, nema hvað að þau ákváðu að kaupa sér útlitsgallaða hillu á afslætti – sem svo komst ekki í bílinn og Augusto þurfti að fara að ná í litla opna jeppann sinn svo að við gætum flutt hilluna á leiðarenda.
Þegar í nýju íbúðina var komið settum við saman risastóra kommóðu á mettíma, nema hvað að efstu litlu hillurnar tvær vildu ekki alveg stemma og svo tókum við eftir undarlega háu hmmmmm hljóði sem á eftir að gera út af við Söruh. En við sjáum hvað setur. Ég er að vona (fyrir þeirra hönd) að þetta sé svona slæmt karma svo að þau eigi nóg af góðu karma seinna… 🙂
p.s. Ég er að hugsa um að arfleiða þau af ókeypis queen-size rúminu okkar sem við fengum fyrir Steinunni, og fá minna rúm í staðinn (double). Við tökum samt ennþá við gestum, en gætum þurft að hýsa einhverja á vindsængum ef margir mæta í einu!… 🙂