Miðvikudagur 30. ágúst 2006
Síðasti miðvikudagur í fríi
Í dag var síðasti miðvikudagsfrídagurinn hennar Önnu Sólrúnar (og þar með minn líka) því að frá og með næstu viku verður hún fullgildur stofnanamatur fimm daga í viku. Við tókum því daginn með trompi og keyrðum upp til San Fran og hittum þar Lottu og Freyju í dýragarðinum. Þetta var í fyrsta skipti sem við höfum farið í garðinn í sólskini og það var skemmtileg tilbreyting því öll dýrin voru úti en ekki í felum inni í húsi. Anna Sólrún var hin kátasta með öll þessi dýr, en Freyja (11 mán) var ekki alveg jafn vel inni í málum þó svo að hún hafi tekið kátínukast þegar hún kom loksins auga á einn ísbjörninn! 🙂
Anna Sólrún er annars í miðjum vaxtarkipp, hefur étið okkur út á gaddinn undanfarna daga og sefur vel. Við mældum hana stuttlega áðan eftir að Sarah lét út úr sér að hún hefði vaxið síðan síðast og jújú… hún var 1 cm hærri en fyrir 10 dögum síðan!
Hún er líka í kurteisiskasti, og um tíma síðustu helgi var heimilið svo kurteist að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið! Það flaut allt í “takk”, “verði þér að góðu”, “nei, en takk samt” og ég veit ekki hvað. Allt var þetta mjög skondið. 🙂
Núna nýjast er hún farin að knúsa okkur og segja “I love you mommie” og Finnur náði að draga út “I love you daddy” (það er erfiðara að elska þann sem svæfir mann á hverju kvöldi víst… 😉
Á fimmtudaginn og föstudaginn í síðustu viku voru starfsdagar í leikskólanum svo við fórum með fjölskyldu Noruh (bestu vinkonu Önnu í leikskólanum) í tjaldútilegu í Big Sur! Það var hin besta skemmtun (sérstaklega gaman að uppgötva hvað hallartjaldið sem Guðrún og Snorri arfleiddu okkur að var riiisastórt!), góð aðstaða í miðjum skógi og ekkert vesen með stelpurnar því þær léku sér bara saman eða amk samhliða.
Við komum örmagna heim og lögðumst bæði í kvef um helgina sem er ekki ennþá farið. Við bíðum bara “spennt” (eiginlega bara óspennt) eftir að tilvonandi hjónakornin Sarah og Augusto leggist líka í pestina, það væri nú alveg ferlegt, því þau eru að fara að gifta sig á sunnudaginn. Næsta helgi (sem er þriggja daga helgi, frí á mánudaginn) fer sum sé í brúðkaup þeirra tveggja, og mikið verð ég nú fegin þegar það húllumhæ er búið!
Það er ekki það að ég hlakki ekki til veislunnar, heldur hlakka ég til að endurheimta þau úr Stresslandi, því þó svo að þau séu með “lítið” brúðkaup þá virðist brúðkaupsundirbúningur alltaf vera aaalveg ferlegur! Það hjálpar ekki til þegar annar aðilinn er í loka-doktorsgráðu-brjálæði og hinn er hálf-farlama… En sum sé, mikið verður ágætt þegar þetta er búið. Og var ég búin að minnast á það við allan heiminn hvað ég er glöð að við Finnur afgreiddum þetta á viku?! 🙂