Mánudagur 31. júlí 2006
Bæ, bæ Fremont…
Sniff, sniff… Var að keyra Guðrúnu á flugvölinn, en hún var viku lengur en Snorri sem fór síðasta mánudag með börnin. Veit reyndar ekki hvort hún sé farin í loftið (Anna Sólrún spurði mig áðan hvort Guðrún yrði hérna í fyrramálið eins og gerðist síðasta þegar við sögðum henni að einhver væri að fara í flugvél) en ég geri ráð fyrir því að þetta gangi allt vel!
En þar með er Fremont-kaflanum lokið og við með opið vina-slott ef svo mætti að orði komast! Það er búið að vera ferlega þægilegt að geta bara rúllað austur í Fremont á hverjum laugardegi, og valsað þangað í veislumat og vinskap fyrir alla fjölskylduna, svo ekki sé minnst á spilamennsku og sundsvaml. Nú vitum við ekkert hvað við eigum af okkur að gera. Aldrei að vita nema við verðum alveg hýper sósjal – eða þá að við verðum ennþá meiri heimakettir og tökum til eða eitthvað… Sjáum til!
Skrítið samt að kveðja fólk sem maður kemur til með að hitta aftur. Ekki eins og það er að kveðja suma skólafélagana sem eru að flytja út um hvippinn og hvappinn og eiga kannski ekki eftir að sjást framar!
Annars liðu Fremont-fólks vikurnar tvær afskaplega fljótt og núna finnst mér eins og ég sé búin að vera í tveggja vikna veislu! Sérstaklega alveg í lokin þegar við tókum okkur til og notuðum loksins gjafakortin þeirra til að fara út að borða í Palo Alto. Við þrjú fórum á Spago á laugardaginn á meðan Anna Sólrún var í pössun og svo í kvöld fórum við öll á Nolas í kvöldmat. Í gær fórum við Guðrún svo á rosalegt shoppíng sprí í Hillsdale kringlunni. Það er gaman að eiga kreditkort… 🙂