Mánudagur 12. júní 2006
Meira af prakkaranum
Eitthvað hefur verið lítið um blogg hér nýlega og rétt að bæta úr. Verst að ég hef lítið að segja annað en að gestirnir okkar (Arnar, Magnea og Eyþór) fóru til Íslands á laugardaginn og því tómt í kotinu. En Anna heldur náttúrulega uppi fjörinu í fjarveru þeirra… 🙂
Anna Sólrún nefnilega kom sér fyrir bak við stofusófann rétt eftir kvöldmatinn og gerði sér lítið fyrir og pissaði á sig. Nokkru síðar sátum við saman á klósettinu (hún á setunni og ég á gólfinu að bíða eftir að hún væri búin). Tók ég þá eftir því að hún var nokkuð smeyk um að henni yrði plantað í rúmið í skiptum fyrir þennan ljóta grikk. Þá datt henni greinilega snjallræði í hug með því að telja upp fyrir mér alla hlutina sem hún hafði *ekki* pissað á þann daginn og fór á benda á hlutina sem næstir voru:
Anna: “Ekki pissað á teppið” (bendir á baðherbergismottuna)
Anna: “Ekki pissað á baðið” (og bendir á baðið)
Anna: “Ekki pissað á pabba” (og bendir á pabba)
Pabbi: “Hmmm…”
Anna: Verður að þvo hárið…
Pabbi: “Ha!?”
Anna: … og svoooo leika.
Pabbi: “Ahhh” (pabbi kveikir á perunni)
Anna: “Þrír handklæði” (segir hún stolt og bendir á handklæðin tvö sem hanga á sturtuhenginu)
Anna: “Eitt er grænt” (bendir á græna handklæðið)
Anna: “Eitt er blár” (bendir á ósýnilega handklæðið)
Anna: “Eitt er fjólublár” (bendir á hvíta handklæðið)
Ekki vissi ég að ósýnilegu handklæðin okkar væru lituð en gott að vita að hún hefur ekki pissað á þau… 🙂
Hún stendur sig annars ágætlega í að læra bæði tungumálin en ruglar ennþá mikið saman orðum milli tungumála:
“Pabbi, can you hjálp?”
“Hvað ert þú doing?”
“Leave it liggjandi” (og bendir á dúkkuna sem “sefur” á gólfinu undir viskastykki)
🙂
Ágætt að skrá þetta allt saman áður en maður gleymir því! 🙂