Fimmtudagur 15. júní 2006
Böggur
Ár og öld síðan ég bloggaði síðast. Fékk nefnilega sinabólgu/sinaskeiðabólgu eftir myndageðveiki aldarinnar fyrir útskriftarveisluna úr bekknum hennar Önnu Sólrúnar þann 2. júní. Þá tók ég mig til og fékk myndir frá öðrum foreldrum í bekknum og bjó svo til DVD disk handa öllum bekknum. Já, og valdi creme-de-la-creme myndir og bjó til 10 mínútna myndasýningu. Voða sætt – en líklega aðeins of harkaleg músavinna fyrir mig. Það hjálpaði svo ekki til að ég var að nudda Finn og blah blah og voila – fékk í hendurnar.
Eyddi síðustu viku hálf-farlömuð en tókst að aumka út tíma í sjúkraþjálfun á mánudaginn, sem var alger brill! Fékk þar heitapotts-vatns-túðu-nudd, svo bólgueyðandi krem og hljóðtíðni-nudd og svo alvöru nudd í þokkabót! Mikið voru hendurnar glaðar eftir það! 🙂
Nú er ég svona la-la, reyni að halda í horfinu með að sitja rétt (á sitju-beinunum) og svo keyptum við okkur svona penna-mús. Líklega skiptir samt mestu máli að ég setti loksins upp Work Rave forritið, sem minnir mann á að teygja sig á 3ja mínútna fresti og svo taka sér 10 mínútna pásur einu sinni á klst. Ég held samt að ég mæti aftur í sjúkraþjálfun í næstu viku enda ekki orðin alveg góð ennþá.
Annars er líklega heilmikið búið að gerast sem ég er búin að blogga um í hausnum, en ekkert af því komst “á blað” og kannski er það þá bara glatað að eilífu? Hmmm, sjáum nú til…
Augusto varði á föstudaginn síðasta og Fayaz er að fara að verja á morgun. Um helgina er svo útskriftin og þá verða margir vinir okkar að doktorum, þar á meðal Deirdre, Logi og Styrmir (það eru þeir sem eru búnir að verja og skila inn undirskrifaðri ritgerð). Í tilefni af því eru núna að rísa tjaldborgir um allan kampus og breiður af hvítum fellistólum þekja flesta grasfleti.
Anna Sólrún fór í heyrnarpróf í morgun og hún mældist með venjulega heyrn en það virðist samt ennþá vera vökvi í eyrunum. Við erum því bara í biðstöðu með það og vonum að þetta þorni yfir sumarið.
Í gær vorum við heima og hrúguðum öllu draslinu hennar Önnu Sólrúnar aftur í gestaherbergið sem er afskaplega tómlegt eftir að Arnar frændi og föruneyti hurfu aftur til Íslands. Anna Sólrún spyr ennþá eftir Eyþóri frænda – en virðist hafa samþykkt að hann sé á “Íslandi”. Hvað sem það er nú!!
Og nú ætti ég að vera að vinna, en gallinn er að það er böggur í kóðanum mínum, sem kálar annarri hvorri línu á kortinu sem ég er að vinna með en bara stundum (!!!). Ég er eiginlega búin að játa mig sigraða og er að bíða eftir að Finnur komi heim og geti hjálpað mér með þetta dularfulla mál. Hef C++ grunað um að stunda einhverja dúbíós heiltölu-reikninga (alltaf vafasamt að blanda saman double og int í c++) en finn bara ekki hvað það myndi vera. Hrumph!