Fimmtudagur 22. júní 2006
Hitabylgja
Það var afskaplega heitt í dag, fór upp í 36 gráður held ég, og ég því fegin að Anna Sólrún gat eytt deginum á loftkældum leikskóla en ekki hérna heima í mollunni eins og í gær. Það er spáð um og yfir þrjátíu stigum næstu daga, ekki gaman það.
Á þriðjudaginn bárust þær sorglegu fréttir frá Íslandi að Ella, systir hans afa Arnljótar heitins, hefði látist um kvöldið eftir löng veikindi. Ella var afskaplega einstök kona, hress og hreinskilin, með sama (húnverska?) húmorinn og afi Arnljótur, og það var alltaf gaman að kíkja til hennar á bókasafnið þegar hún var safnvörður. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Áslaugar, Kötu Klöru og fjölskyldu. Það er einmitt á svona stundum sem það er einstaklega erfitt að búa svona langt frá fjölskyldunni. 🙁
Þennan sama dag átti mamma svo afmæli, varð 49 ára – og óskum við henni til hamingju með það! Dagurinn var kannski ekki alveg sá skemmtilegast því hún eyddi honum á St. Jósefsspítla í rannsóknum eftir mánaðar baráttu við lungnabólgu og annan ófénað. Við vonum samt að þetta fari nú að lagast bráðum! Ég reyndi að fá Önnu Sólrúnu til að syngja afmælissönginn í gegnum símann, en sú stutta er komin með söng-feimni sérstaklega fyrir framan tölvuna.
Hún kann samt ágætlega að syngja, og nýjasta nýtt er splúnkunýtt dót sem hún erfði frá Ingvari Atla þeirra Ásdísar og Auðunar sem voru að flytja heim til Íslands núna í vikunni. Dótið er amerísk söngdós sem syngur stafrófið á ensku og hefur þar fyrir utan þrjú göt fyrir stafi sem tækið tilkynnir hátt og skýrt hvað heiti og hvað þeir segi. Hér á heimilinu heyrist því fátt annað en “Professor Quigley here… A, B, C, D…” og svo einhver útgáfa af “N says nnnn”. Og það kemur lítið á óvart að eftir þúsund endurtekningar á stafrófslaginu (sem er merkilega grípandi) þá er Anna Sólrún farin að stauta með…
Nú er bara stóra spurningin, er hægt að kaupa svona tæki á íslensku?!?! 🙂