Miðvikudagur 3. maí 2006
Ljúft líf
Miðviku-frí-dagur númer tvö. Morguninn var busy, busy. Við keyrðum Finn í vinnuna og svo yfir flóann til að ná í íslenskan fisk frá Icelandic.com í stóra frystigeymslu í austurflóanum. Anna Sólrún var hrifin af öllum litlu rafmagns-lyfturunum sem þutu fram og til baka, sumir meiri að segja aftur-á-bak!
Eftir að fiskurinn (öll 20 kg) var kominn í skottið þutum við heim til að skutla honum í frystinn – og þutum svo út í bíl aftur til að ná í Finn og skutla honum til handa-læknisins alveg á síðustu stundu! Finnur hefur sem sagt verið í meðferð hjá “physical therapist” út af sinabólgu (enska: tendonitis) í höndunum sem er algengur atvinnusjúkdómur hjá tölvunarfræðingum. Eftir átta vikur af meðferð hefur honum farið mikið fram en það er ennþá eitthvað eftir sem þarf að vinna á. Læknirinn gaf honum því uppáskrift á fjórar vikur í viðbót af meðferð.
Á meðan Finnur lét kíkja á sig fórum við mæðgur í Whole Foods og eyddum morð fjár í ljúffenga eiturefnalausa ávexti, grænmeti og hormóna-og sýklalyfjalaust kjöt. Eftir matarkaupin fórum við heim, Finnur keyrði í vinnuna og við mæðgur fengum okkur hádegismat og lúrðum svo í tæpa tvo tíma. Eftir smá snarl fórum við út og komumst að því að það gustaði köldu úti svo við heimsóttum Ingvar Atla. Eftir íslenskan þorsk í kvöldmat sjónvörpuðumst við og núna er Good Night and Good Luck á dularfullu skólastöðinni.
Talandi um fólk sem talar á móti opinberum yfirvöldum. Um helgina var haldið ball í höfuðborg Bandaríkjanna þar sem fréttamenn klöppuðu sér á bakið og forsetinn sjálfur mætti til að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér með því að mæta með eftirhermu sem sagði það sem forsetinn var “raunverulega” að hugsa. Þetta atriði fékk mikla athygli frá fréttamiðlunum sem eru víst búnir að spila þetta atriði oft og mörgum sinnum síðan á sunnudaginn.
Hvað um það. Það er víst hefð að ráða “grínista” til að flytja lokaræðu kvöldins og í ár varð Stephen Colbert fyrir valinu. Stephen þessi Colbert (sem er borið frá “Kol-behr…”) var “fréttamaður” á The Daily Show with Jon Stewart en fékk nýverið sinn eiginn þátt, The Colbert Report (borið fram Kol-behr Rap-pohr) þar sem hann flytur “fréttir” í ham hægrisinnaðs þáttastjórnanda (eins og Bill O’Reilly – hrrrollur!) sem veit allt best – en er í raun afskaplega fáfróður. Eins og hann sagði svo vel í fyrsta þættinum – “I won’t read the news to you, I’ll feel them at you”.
Það er erfitt að útskýra af hverju við hérna í Bandaríkjnum erum svona hrifin af Daily Show-inu og svo Colbert Report (þegar við höfum tíma til að kíkja á það) – en ég held að það sé af því að hérna eru engar _alvöru_ fréttir. Fréttatímarnir í sjónvarpinu eru brandari. Það er ekki hægt að horfa á þær því það eru endalaus auglýsingahlé, og í þokkabót þá límast fréttastofurnar við einhverja eina sögu og gjörsamlega myrða hana á meðan margt annað (eiginlega allt annað) er látið ósagt. Núna er líka búið að gefa öllum þeim sem flytja “fréttir” leyfi til að skjóta inn persónulegum kommentum sem eru fullkomlega óviðeigandi og óendanlega pirrandi.
Niðurstaðan er sem sagt sú að við horfum aldrei á “fréttatíma” hérna úti, við lesum í staðinn blöðin á netinu – og horfum alltaf á Daily Show því þeir safna saman því helsta og sýna það, bara í fyndinni umgjörð sem leyfir þeim að segja hluti sem aðrir segja ekki. Við horfum sjaldnar á Colbert Report, því þó hann flytji þannig séð stundum fréttir, þá er Colbert karakter (Jon Stewart er bara Jon Stewart) og þættirnir eru ójafnari. Viðtölin hans Colbert eru samt stórkostleg því hann kemst upp með að spyrja ótrúlegra spurninga bara í gervi þess sem heldur að hann viti allt – á meðan hinn raunverulegi Stephen Colbert er í raun mjög fróður, og vinstrisinnaður í þokkabót.
Ok, nóg um það. Við erum sem sagt aðdáendur. Það kom því á óvart þegar ég var að kíkja á fréttirnar eftir helgina og hvergi var minnst einu orði á Stephen Colbert. Fréttamiðlarnir voru sem fyrr fullir af forseta-atriðinu, og hér og þar var lítil málsgrein neðst um að Stephen Colbert hefði ekki vakið kátínu hjá forsetahjónunum og/eða ekki verið mjög fyndinn yfir höfuð. Þetta vakti forvitni mína og ég fór að leita á netinu að frekari fréttum.
Hvað skal segja. Vefurinn var uppljómaður af fólki sem hélt ekki vatni yfir honum – og allir voru jafnundrandi á því að hvergi nokkurs staðar var neitt að “opinberlega” að frétta. Eftir nokkra leit fann ég texta af ræðunni og svo loksins vídeó (líka hægt að leita á á ifilm.com) af drengum og oh, boy… Þvílík ágætis rassskelling fyrir forsetann og alla hirðina sem var samankomin í salnum! Hann var kannski ekki svo “haha-fyndinn”, en ég á eftir að kvóta frasa úr þessari ræðu næstu árin…
Til að þakka fyrir okkur þá er búið að setja upp Thank you Stephen Colbert síðu, sem var síðast þegar ég kíkti komin í 42000 undirskriftir (ég var um #8000 á mánudaginn…
Fréttamiðlarnir eru hægt og rólega að átta sig á því að þeir gjörsamlega misstu af því að maðurinn var ekki að segja brandara fyrir þá sem voru í salnum, heldur þá sem sátu heima – og hann hitti þvílíkt í mark – sérstaklega með forsetann _við hliðina á sér_!!. New York Times sem missti algjörlega af þessu reyndi að bæta fyrir blindnina með því að flytja fréttir af því að netheimar hefðu gjörsamlega misst vitið yfir manninum og margar vefsíður flytja fréttir af mestu traffík síðan kosningarnar voru, eða fangapyntingaskandalinn.
Þannig eru Bandaríkin í dag…