Mánudagur 22. maí 2006
Gestalaus!
Það stytti upp í morgun og sást í bláan himin í fyrsta skipti síðan á fimmtudaginn, degi of snemma miðað við veðurspána, svo Arnar og Magnea ákváðu að láta gossa og lögðu af stað í ofur-ferðalagið sitt um Kaliforníu og nágrannafylkin. Það var leiðinlegt að sjá á eftir þeim enda alltaf gaman að hafa félagsskap (Anna Sólrún spurði aftur og aftur eftir Eyþóri þegar hún kom heim í dag) en við vonum að þau eigi ánægjulegt ferðalag – og hlökkum til að sjá myndirnar!! 🙂
Í gær lögðu við annars bensínpedala undir fót og keyrðum að hafinu. Á leiðinni kveiktum við á Prairie Home Companion og fengum næstum hjartastopp þegar í ljós kom að þátturinn var tekinn upp á Íslandi!!! Ég fékk gæsahúð þegar Diddú söng “Hvert örstutt spor” og svo aftur þegar Fóstbræður tóku “Ísland ögrum skorið.” Ahhh… Hið ástkæra ylhýra!! 🙂 Það væri gaman að vita hvort einhver þekki einhvern sem fór á upptökuna á þættinum?! 🙂
Fyrsta stopp var við Half Moon Bay þar sem við borðuðum hádegismat á fínum veitingastað. Síðan keyrðum við suður á bóginn, meðfram Kyrrahafinu, í grenjandi rigningu meira eða minna alla leiðina til Monterey á meðan börnin sváfu. Þar fórum við í Monterey sædýrasafniðsem stóð fyrir sínu að vanda. Alltaf jafn imponerandi! 🙂 Svo borðuðum við kvöldmat á aðal-túristabryggunni, en maturinn kom á óvart og var mjög góður, sérstaklega miðað við staðsetninguna. Síðan keyrðum við heim og vorum ekki komin á leiðarenda fyrr en 10 um kvöldið! Langur en skemmtilegur dagur það! 🙂