Þriðjudagur 4. april 2006
Nýr bekkur
Við Anna Sólrún fórum í fyrstu aðlögunar-heimsóknina í nýja bekkinn hennar í morgun. Heimsóknin gekk vel, Anna Sólrún fann ekki hjá sér neina þörf til að hanga í mér heldur hljóp um og lék sér. Það auðveldar málið að gömlu bekkjarbræður hennar, þeir Spencer og Felix, eru í bekknum sem hún er að fara í og ég tók eftir því að hún lék sér strax heilmikið með Felix, gamla kærastanum frá því fyrir rúmu ári síðan. 🙂
Það er samt gríðarlegur munur á henni og eldri krökkunum, sérstaklega málfarslega séð, en eldri börnin eru flest um og yfir þriggja ára. Hún kann heldur ekki reglurnar um hvenær hún eigi að sitja kyrr, því í hennar bekk þá fá þau að ráfa mikið meira um en þarna. Sem betur fer er hún samt ekkert sérstaklega mikið minni en stóru krakkarnir, munar kannski örfáum cm – og mér sýndist hún ætla að bæta það upp að miklu leiti með ákveðninni einni saman!
En sum sé, ég held að hún sé alveg tilbúin í næsta skref, en það verður erfitt að kveðja gamla bekkinn og þá frábæru kennara sem eru þar. Það vill annars svo til að einn af nýju kennurunum var kennarinn hennar fyrsta árið á leikskólanum, sem þýðir að hún þekkir okkur og það auðveldar allt heilmikið. Hinir kennararnir virðast líka ágætir, (eða ágætar, allt konur) en þær tala allar ensku með mjög mismunandi hreim sem verður áhugavert! 🙂
Og já, það rignir ENNÞÁ! Í morgun voru mestu pollar úti sem ég hef séð síðan við fluttum hingað – allt bókstaflega á floti. Og fyrir utan mögulegan þurrk á laugardaginn, þá er spáð rigningu næstu 10 daga. Þetta mun bókstaflega vera rigningin sem Seattle er fræg fyrir, veðurkerfin á Kyrrahafinu eru víst að bauna þessu öllu beint á okkur í staðinn! Ætli það sé hægt að senda inn kvörtun?!