Fimmtudagur 13. apríl 2006
Öfgadagur
Það gekk allt annað hvort á afturlöppunum eða afskaplega vel í dag. Í fyrsta sinn í einn og hálfan mánuð var alvöru Kaliforníu-veður og allar fjölskyldurnar í garðinum komu út að leika. Ég hef sjaldan eða aldrei séð þvílíka örtröð á leikvellinum!! En við vorum því miður ekki mikið úti að leika. Anna Sólrún var ennþá að kvarta yfir eyranu, svo við ákváðum að fara með hana til læknis. Fyrst þurfti Finnur samt að komast í vinnuna – en þegar við vorum rétt lögð af stað er okkur sagt á einum ljósunum að eitt dekkið sé svo til vindlaust.
Jújú, það var rétt og Finnur setti varadekkið undir á meðan við dekurrófurnar stóðum hjá og ég lýsti aðförunum fyrir Önnu Sólrúnu. Síðan þeysti ég með Finn í vinnuna því nú vorum við orðin allt of sein til læknisins, og þeysti síðan á spítalann, nema hvað að það er erfitt að þeysast nokkurn skapaðan hluti í morguntraffíkinni, svo að þeysingurinn var mestmegnis andlegur!
Til læknisins komum við 10 mínútum of seint, en það var í lagi, við rétt sluppum fyrir horn. Hún sá að það var ennþá vökvi í eyrunum, en gat ekki sagt hvort að sýkingin væri að taka sig upp eða að lagast, en það hljómaði samt eins og að hún væri eitthvað að skána frá því í síðustu viku. Það sem Anna Sólrún er núna búin að klára alla mögulega “venjulega” sýklalyfjaskammta og er á leiðinni til Hawaii á laugardaginn, þá stakk læknirinn upp á “decongestant” til að sjá hvort það væri hægt að reyna að lokka jökkði út.
Ég keypti því svoleiðis, sem hafði þau áhrif helst að Anna Sólrún var næstum sofnuð sitjandi yfir hádegismatnum sínum! Hún svaf heldur betur góðan og langan eftirmiðdegislúr í dag sko! En eftir lúrinn fékk hún lítinn frið, heldur var færð í heimsókn í nýja bekkinn. Sú heimsókn gekk vel, en var heldur stutt því ég var að fara í endur-menntunar-köfunar-námskeið enda komin heil þrjú ár síðan ég fór síðast í sjóinn!!
Við þeystumst því enn og aftur á hraðbrautunum, en í þetta sinn fór ég með Finn og Önnu Sólrúnu í heimsókn til Jennifer, Sigga og stelpnanna þeirra tveggja á meðan ég þvældist meira í umferðinni og eyddi síðan kvöldinu í að rifja upp hvernig þetta köfunardót gekk allt saman fyrir sig. Það var gaman að komast aftur í sundlaugina og finna blautbúningslyktina! Planið á Hawaii er að fara í amk 2-3 köfunarferðir, en það er ekkert búið að fastsetja nema risa-skötu-nætur-köfun (Manta Ray night dive) á mánudeginum.
Klukkan 23 (eftir að hafa villst vel og vandlega í tilefni dagsins) náði ég svo loksins aftur í Finn og Önnu Sólrúnu sem voru bæði ennþá vakandi! Svo skröltum við heim og nú er bara að planleggja morgundaginn, sem er síðasti dagur fyrir Hawaii ferð!
P.s. Logi og Tassanee voru í kvöldmat hjá okkur í gær (ásamt Braga) og þau voru einmitt nýkomin frá Big Island á Hawaii. Maður slefaði alveg yfir myndunum sem þau tóku. Ó-boj-ó-boj-ó-boj!! 🙂