Sunnudagsmorgun 23. apríl 2006
Komin heil heim aftur
Vorum að skríða inn úr dyrunum eftir langt ferðalag frá Hawaii. Fluginu seinkaði um rúma þrjá tíma, svo að við tókum leigubíl frá flugstöð niður í Kona-bæ og eyddum þar letidegi á grasbletti við hafið eftir að hafa borðað á túrhestaveitingastað. Flugið gekk vel, Anna Sólrún og Finnur sváfu það að mestu af sér á meðan að ég eyddi tímanum (og drap nokkrar heilasellur örugglega!) með því að horfa á myndina Nanny McPhee. Hinum megin við ganginn reyndu Guðrún & Co. að sofa líka sem gekk upp og ofan enda erfitt að koma einum fullorðnum, einum 2ja ára og einni 9 ára þægilega fyrir svo vel færi um alla. Snorri hafði það líklega best í einka-gluggasæti fyrir aftan hersinguna!
En í alla staði þá var þetta alveg frábært frí – ef frí skyldi kalla! Við vorum á þeytingsspani allan tímann og núna þurfum við eiginlega frí eftir fríið!! En til þess var leikurinn gerður, allt of mikið skemmtilegt að gera á Hawaii til að eyða því flatmagandi á einhverri strönd!! 🙂