Fimmtudagur 2. mars 2006
Rannsóknar-rússibani
Hann Anthony yngsti bróðir varð 8 ára í dag, mikið rosalega líður tíminn hratt! Happy Birthday Anthony!!! 🙂 Við kíktum á þá feðga með aðstoð vefmyndavéla og talforrita og Anna Sólrún var svo spennt að hún kom varla upp neinu orði! Fyrir rest tókst samt að ná út úr henni “Happy birthday to you…” en þau á leikskólanum eru voða duglega að búa til afmæliskökur í sandkassanum. 🙂
Annars vann ég heima í dag til að missa ekki af afmælispakkanum mínum frá Hollu, Óla, Öddu og Halla og áhangendum – en UPS gæinn fór víst í fýluferð með hann í gær. Þegar hann mætti svo kom í ljós að pakkinn þurfti “Adult Signature”, mikið er nú gott að vera orðin “Adult”! 🙂 Í pakkanum leyndist fullt af góðgæti, þar á meðal vínflöskur sem skýrðu fullorðnis-skilyrðið! 🙂
Þegar leið á daginn fór ég að fikra mig aftur eftir rannsóknar-rússíbananum. Eyddi næstum viku í að hringsnúast um sjálfa mig í leit að “factor of two”, það er hvort ég ætti að deila á einum stað með tveimur eða ekki. Svo kom í ljós í gær að ég get hvort eð ekki notað aðferðina sem ég hafði hugsað mér (helv. one bit sampler!!) þannig að ég þurfti að snúa mér aftur að aðferð sem ég hafði reynt áður, en án þess að fá nokkra niðurstöðu.
Mér til halds og trausts voru nýjar upplýsingar (ég fann villu í grein!!) og því fetaði ég mig eftir rússibananum eins hægt og ég gat í dag í þeirri von að gera ekki einhverjar vitleysu. Í lok dags þá er ég komin með einhverjar tölur, en þær stemma illa og eru óendanlega stórt villubil (errorbars)!! Var ég búin að minnast á það að ég þarf að klambra saman plaggati í næstu viku, og fljúga svo til Houston Texas þann 13. mars til að segja fólki eitthvað um þessar blessuðu tölur mínar!?!? Rússibani indííd!
Snilld dagsins var samt að ég skreið loksins í sund eftir að búin að vera að klæja í sundfitin í margar vikur. Ahhh, fátt betra en sund. 🙂
p.s. Afmælismaturinn var voða fínn, Finnur fékk sér humar og ég fisk dagsins. Við vorum svona drjúg með okkur því Finnur hafði fengið verðlaun/viðurkenningu daginn áður í vinnunni fyrir góða þjónustu við viðskiptavini og verðlaunin voru kvöldverður með konunni! 🙂